Austfirðingar í safnaðarferð til Reading

Meðlimir í sóknarnefndum og kirkjukórum Stöðvarfjarðar, Djúpavogshrepps og Breiðdals halda á morgun í safnaðarferð til Reading í Englandi. Sóknarpresturinn segir tilhlökkun í hópnum og gaman verði að kynnast kirkjumenningu nágrannalands.


„Við förum með 30 manns í fimm daga ferð og tökum meðal annars þátt í messu á sunnudag,“ segir Sr. Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Breiðdal og Stöðvarfirði. Kona hans, Sjöfn Jóhannesdóttir, er prestur í Djúpavogshreppi og fara þau fyrir hópnum.

Gunnlaugur segir þau fyrst hafa myndað tengsl við Reading þegar þau húsvitjuðu tvö sóknarbörn af svæðinu, Ívar Ingimarsson og Hrefnu Arnardóttur, þegar þau bjuggu þar.

„Við hrifumst af bænum og mannlífinu og kynntumst líka kirkjulífinu þar,“ segir Gunnlaugur en þau hafa síðar farið fleiri ferðir utan og styrkt sambandið.

Séra Stephen Pullen, prófastur í Reading, tekur á móti hópnum ásamt samstarfsfólki sínu St. Mary‘s kirkjunni. Hann er síðan væntanlegur til Austfjarða í haust til að ferðast um svæðið og kynna sér safnaðarstarfið.

En fyrst fara Austfirðingarnir út. Dagskráin er fjölbreytt en til stendur að skoða Windsor-kastala og Stonehenge á föstudag.

„Við hlökkum til og þetta verður gaman, að fara saman og kynnast menningunni í kirkjunni í nágrannalandi. Það er þroskandi,“ segir séra Gunnlaugur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.