Ágóði af eftirréttinum gefinn til Áfallateymis Austurlands

Nefnd starfsmanna Hótels Héraðs um samfélagslega ábyrgð afhenti í gær Áfallateymi Austurlands 186 þúsund króna styrk. Hlutfall af sölu eftirréttar sem að mestu var úr hráefnum af Héraði rann í söfnunina.


„Ég varð mjög meyr þegar ég heyrði af því að það ætti að styrkja okkur. Við erum mjög þakklát fyrir styrkinn,“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir. Hún tók við styrknum fyrir hönd teymisins ásamt Ólöfu Margréti Snorradóttur en þær eru báðar prestar í Egilsstaðaprestakalli.

Áfallateymið er samstarf kirkjunnar, félagsþjónustu sveitarfélaganna og heilsugæslunnar á svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs. Stofnanirnar leggja til vinnu starfsmanna í teymið en enga beina fjármuni.

Teymið var sett saman vorið 2014. Það starfar á sviði forvarna og fræðslu við ótímabær dauðsföll ung fólks ásamt því að styðja við aðstandendur og vini í kjölfar dauðsfalls. Styrkurinn nýtist í aðkeypta fræðslu en Óttar Guðmundsson geðlæknir og Vilhelm Norðfjörð, komu til dæmis austur á vegum þess vorið 2015.

„Það urðu tvö sjálfsvíg hér á tveimur árum og af slíku verða allir fyrir áhrifum. Við höfum fundið að allir vilja leggja okkur lið. Í svona litlu samfélagi eru atburðir sem þessir eins og hamfarir,“ segir Sigríður Rún.

Á Icelandair-hótelunum starfa svokallaðar Moment-nefndir en þær taka meðal að sér verkefni sem snúa að samfélaginu. Guðjón Rúnar Þorgrímsson, matreiðslumeistari, er einn þeirra sem leiðir nefndina á Hótel Héraði.

„Í starfsmannahópnum er margt ungt fólk sem þekkti vel til drengjanna og fermingarveislur þeirra voru til dæmis haldnar hjá okkur. Við töluðum saman og ákváðum að velja Áfallateymið og fengum góð viðbrögð frá stjórn hótelsins.“

Á matseðlinum í sumar var skyrfrauð frá Egilsstöðum með rabarbara, berjum og bökuðum höfrum meðal eftirrétta.

„Við fundum að þetta var langvinsælasti eftirrétturinn enda var tekið fram að hluti af sölu hans rynni til þessa málefnis. Út af þessu var líka langskemmtilegast að gera hann,“ segir Sindri Geir Guðmundsson, matreiðslumaður.

Nefndin fór í frítíma sínum og tíndi rabarbarann sem notaður var í réttinni til að hafa hráefnið í hann ódýrara. „Þetta er meiri staðarréttur en margir aðrir á seðlinum,“ útskýrir Sindri.

Moment-nefndin hefur tekið sér fleira fyrir hendur. Í byrjun sumars tók hún að grillveislu fyrir foreldrafélag leikskólans gegn því skilyrði að sú upphæð sem sparaðist færi til góðgerðamála. Tækifæri var nýtt til að kaupa þroskaleikföng.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.