Orkumálinn 2024

Ættin býður í appelsínugula súpu

Fellamenn opna heimili sín og bjóða í súpu sem hluti af héraðshátíðinni Ormsteiti. Í innsta húsinu við götuna Helgafell hefur ættarleggur tekið sig saman í eldamennskunni.


„Það eru minnst þrjár íbúðir í húsinu hjá okkur. Við erum hér fimm sem erum skyld og svo bætast við makar okkar og systkini þannig þetta er eins og ættarmót,“ segir Kristjana Sigurðardóttir, íbúi í Helgafelli 1-3.

Sjö hús í Fellabæ auglýst opið hús og margvíslegar súpur eru á boðstólnum. Í Helgafellinu verður boðið upp á paprikusúpu. „Hún er að minnsta kosti appelsínugul. Súpan á að vera hæf öllum nema þeim sem eru með laktósaofnæmi.“

Þetta er annað árið í röð sem Kristjana tekur þátt í súpuveislunni en fyrsta skipti sem fjölskyldan sameinast um eldamennskuna. Auk þeirra sem búa í húsinu bætast við ættingjar þeirra frá bænum Setbergi sem munu hita Ketilkaffi.

Í fyrra komu yfir 100 manns í súpuna til Kristjönu og hún reiknar með álíka fjölda nú. „Það gildir fyrstur kemur, fyrstur fær. Þegar súpan er búin er hún bara búin.“

Fellamenn eru uppistaðan í gestaflórunni en Egilsstaðabúar eru einnig duglegir að koma. „Það er gefandi að taka þátt í þessu, fólk kemur saman og spjallar. Það er smá kostnaður við súpuna en þegar við tökum saman þátt er þetta enginn peningur auk þess sem MS gefur okkur rjómann.“

Súpukvöldið stendur frá klukkan sjö til níu í kvöld. Á dagskrá Ormsteitis í kvöld er einnig ungmennakvöld við Sláturhúsið sem hefst klukkan sex.

Á morgun er boðið til grillveislu í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum í tilefni af 70 ára afmæli kaupstaðarins. Að því loknu verða hinir árlegu hverfaleikar þar sem stig fyrir best skreytta hverfið vega þungt. Hugur eru í Fellamönnum sem málað hafa bæinn appelsínugulan.

„Fólk hittist á þriðjudagskvöld og skreytti. Við þurfum að vinna þessa keppni,“ segir Kristjana.

Á laugardag er efnt til afmælisveislu Egilsstaða á gamla tjaldsvæðinu og og kvöldið verða þar afmælistónleikar. Ormsteiti lýkur með Fljótsdalsdegi á sunnudag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.