Ætlar að róa einsamall til Kanada

Kanadamaðurinn Chris Duff sem hefur dvalið á Breiðdalsvík undanfarið ætlar að róa til Kanada í byrjun næstu viku.


Duff er á litlum bát, nokkurskonar sjókajak sem er 6 metra langur og rétt rúmur meter á breidd. Í bátnum er lokað svefnrými og hann er þannig útbúin að hann rétti sig sjálfur af fari svo að honum hvolfi.

Duff ætlar að fara suður til Grindavíkur um helgina og leggja upp þaðan í næstu viku en hann þarf að bíða hagstæðrar vindáttar til að leggja af stað. Auk þess að róa nýtir Duff vindinn, með seglum og einskonar flugdrekum. „Ég vil ekki bara róa, auðvitað mun ég róa allann tímann en ég held að það væri bókstaflega kjánalegt að nýta sér ekki vindinn líka, og þegar tækifæri gefst mun ég nota seglin eða flugdrekana,” segir Duff.

Ferðinni er heitið til Kanada með viðkomu á suður Grænlandi. Duff gerir ráð fyrir að róðurinn til grænlands muni taka um 3 vikur en þar ætlar hann í land þar sem hann mun hvílast, skoða veðurspár og skipuleggja áframhald ferðarinnar nánar.

Með sér hefur Duff 60 daga vistir af þurrmat og 100 lítra af vatni, hann gerir þó ráð fyrir að geta brætt ís til neyslu eftir því sem norðar dregur. „Matur og vatn eru mikilvægasta úrlausnarefnið í svona ferð og af því að ég er með litinn prímus með mér þarf ég ekki að flytja jafn mikið vatn heldur get notast við ís sem verður á vegi mínum.”

duff


Duff segirst í raun vera að halda áfram með ferðalag sem hann hóf árið 2011 þegar hann réri frá Skotlandi til Íslands með viðkomu í Færeyjum en þá kom hann í land á Breiðdalsvík.

Duff hefur undanfarin ár fengið að geyma bátinn sinn hjá Ingólfi Finnssyni og Helgu Hrönn Melsteð. Hann segist Íslendingum, og sérstaklega þeim hjónum, verulega þakklátur. „Allir sem ég hef hitt hafa verið svo áhugasamir og hjálpsamir, ég veit ekki hvernig ég myndi fara að þessu núna ef ég hefði ekki vini mína hér á Íslandi, þetta væri svo mikið erfiðara. Þannig að ég segi bara kærar þakkir allir á Íslandi.”

Aðspurður segist Duff ekki vita til þess að farin hafi verið samskonar ferð áður en hann hafi þó ekki mikin áhuga á að setja met. ,,Ég held að það sé mikilvægt að vera ekki að þessu til að setja eða rjúfa einhver met, það höfðar ekki til mín og ég held að það sé hættulegt,” segir Duff og gefur upp sömu ástæðu fyrir því að þetta sé í fyrsta sinn sem hann hafi talað við fjölmiðla. Blaðamaður hafði fengið ábendingar um ferðir Duffs og hann tók vel í að ræða þær en sagðist einfaldlega ekki sækjast eftir athygli fjölmiðla.

Myndir: Helga Hrönn Melsteð og Tommy Cook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.