Á ekki von á uppþoti vegna vegglistaverks

Þeir sem eiga leið fram hjá Bókakaffi í Fellabæ þessa dagana veita því kannski athygli að á einum veggnum er að fæðast skemmtilegt listaverk.


„Hugmyndin kviknaði nú bara þegar ég var að mála framhlið hússins í sumar. Mér fannst hvíti flöturinn svo stór og tilvalið að setja eitthvað á hann,“ segir Gréta Sigurjónsdóttir, eigandi Bókakaffis.

Gréta segist hafa viðrað þessa hugmynd inn á kaffihúsinu þar sem akkúrat var stödd unga listakonan Kolbrún Drífa Eiríksdóttir sem var meira en til í að taka að sér að mála eitthvað skemmtilegt á vegginn.

„Hugmyndin mín var að mála glugga á húsið og einhverja sem sætu fyrir innan að drekka kaffi. Kolbrún Drífa kom þá með þá hugmynd á móti að tengja verkið umhverfinu á Héraði og vinna með álfa, tröll, hreindýr, Lagarfljótsorminn og fleiri góða. Mér leist afar vel á þá skemmtilegu tillögu og úr verður að þessar verur munu vera saman í þessu skemmtilega kaffisamsæti.“

Gréta segir að nú sé farið að rigna og því hafi orðið að gera hlé á málningarvinnunni. „Það er engin pressa á að klára þetta einn, tveir og þrír. Það fer bara eftir veðri og vindum, auk þess sem listakonan er að byrja í skólanum aftur. Hún er mjög flink og gerir þetta allt saman fríhendis og það er virkilega gaman að sjá þetta fæðast.

Engar áhyggjur af uppþoti
Ekki var hægt að sleppa því að minnast á fjaðrafokið vegna myndarinnar á Sjávarútvegshúsinu sem stendur við Skúlagötu í Reykjavík, þar sem málað hefur verið yfir stórt vegglistaverk. Heldur Gréta að það komi til sambærilegs uppþots í Fellabænum?

„Ég spurði nú bara eiganda hússins en fleiri talaði ég ekki við, en mín reynsla er sú að þurfi að tala við marga verður ekki neitt úr neinu. Ef að einhver verður vitlaus þá er einfalt að mála vegginn hvítan aftur, ég hef engar áhyggjur af því.

Bókakaffi2 1200

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.