Fór í rithöfundaskóla í Svíþjóð: Besta vika lífs míns hingað til

unnur mjoll 1 webUnnur Mjöll Jónsdóttir, sem útskrifaðist úr Grunnskólanum á Reyðarfirði síðasta vor, lýsir vikudvöl sinni í norrænum rithöfundaskóla í síðasta mánuði sem „bestu viku lífsins hingað til.“ Í skólanum hafi verið boðið upp á fjölbreytt verkefni undir handleiðslu hæfra kennara.

„Þetta var bara besta vika lífs míns hingað til og ekkert getur toppað hana. Svo kynntist ég flestum svo vel og ég get sagt það að ég hef eignast góða vini um öll norðurlöndin til frambúðar,“ segir Unnur Mjöll um ferðina til Svíþjóðar sem Austurfrétt greindi frá í lok júlí.

Unnur Mjöll fékk ferðina í verðlaun fyrir smásögu sem hún skrifaði og samdi inn í norræna smásagnakeppni.

Hún segist hafa heillast af Stokkhólmi en hópurinn var þar í tvo daga. Skólinn sjálfur var á eyjunni Bisköps Arnö, norður af höfuðborginni miðja vegu á milli Uppsala og Enköping, en þar er rekinn lýðháskóli.

„Mig langaði sannarlega ekki að fara. Ég væri helst til að vera þarna að eilífu. Þessi staður er fullur af lífi og umhverfið veitir manni mikinn innblástur til að skrifa.“

Hún segir námið í skólanum hafa verið töluvert frábrugðið því sem hún bjóst við en þátttakendum var skipt upp í hópa eftir þjóðernum.

„Við tókumst á við alls konar verkefni og áskoranir. Við fengum kannski tæpan klukkutíma til að skrifa eitthvað og svo áttu allir í íslenska hópnum að setjast niður og lesa það sem þeir skrifuðu niður. Á kvöldin voru allir saman og kennararnir höfðu þá undirbúið einhverja skemmtun, leiki, upplestra og fleira skemmtilegt.“

Unnur segist sérstaklega ánægð með móttökur sænsku gestgjafanna. „Það eru allir svo vinalegir í Svíþjóð. Ég hitti ekki einn Svía sem var ókurteis.“

Myndir: Úr einkasafni

unnur mjoll 2 webunnur mjoll 3 webunnur mjoll jonsdottir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.