Draumur um dans

dansadu fyrir mig 0019 webÞað var vel mætt í Sláturhúsið á Egilsstöðum á laugardagskvöldið þegar Ármann Einarsson og Brogan Davison sýndu þar dansverkið „Dansaðu fyrir mig“. Verkið hefur vakið mikla athygli enda Ármann tæplega fimmtugur tónlistarkennari sem aldrei hefur sýnt dans áður.

Ármann er Austfirðingum að góðu kunnur. Hann hefur búið á Héraði hátt í hálfa ævina og það hafði án efa sitt að segja um mætinguna. Hann sagði raunar sjálfur að hann þekkti um 90% þeirra sem mættir voru á sýninguna.

Þetta skapaði alveg sérstaka stemmingu á sýningunni, en jafnframt líka eina áskorun til viðbótar fyrir listamennina að takast á við. Það er auðséð að þeim sem að sýningunni standa er umhugað um að gera þetta af fullri alvöru og til þess þarf að komast yfir þær hindranir sem eru í veginum.

Fyrst og fremst er það sú staðreynd að aðaldansarinn er ekki dansari, en í framhaldinu kemur að tryggja að verkið snúist ekki bara um hvað það er fyndið að sjá feitan miðaldra mann dansa nútímadans. Þegar áhorfendahópurinn samanstendur af vinum dansarans og rýmið er lítið og áhorfendur alveg ofan í sviðinu verður þetta tvöfalt meiri áskorun en ella.

Það er skemmst frá því að segja að þrátt fyrir allar þessar áskoranir þá hefur þeim Ármanni og Brogan, ásamt Pétri Ármannssyni leikstjóra, tekist að skapa einstaka sýningu sem er bæði alvarleg, hlý, fyndin og snertir verulega við áhorfandanum.

Lausnarorðið er einlægni. Bæði Ármann og Brogan deila miklu af sjálfum sér, bæði með dansi en einnig í töluðu orði, með myndum og tónlist. Því má segja að það sé ekki eingöngu um dansverk að ræða, a.m.k. ekki í þeim þrengsta skilningi sem má leggja í hugtakið. Kannski er það einmitt hluti af því sem gerir verkið svo heillandi. Á sviðinu eru listamenn sem eru að miðla tilfinningum og boðskap, grípa til þeirra tækja sem best hentar hverju sinni og þá skiptir ekki öllu máli hvað það kallast. Það er innihaldið sem stendur eftir.

En hver er þá boðskapurinn? Sjálfsagt getur hver áhorfandi tengt við hana með sínum hætti. En í mínum huga er boðskapurinn sá að vera ekki hræddur. Ekki hræddur við að opinbera sig, hlusta á sjálfan sig, gera það sem hugurinn stendur til. Að gefa heiminum umhverfis sig langt nef og leyfa honum ekki að móta sig umhugsunarlaust. Og þetta snýst ekki bara um að leyfa sér að dansa þó maður sé feitlaginn kall. Þetta snýst um að vera maður sjálfur, með öllum sínum kostum og göllum.

Í ljósi þess að sýningin er að langmestu leyti kynnt sem frumraun Ármanns sem dansara er rétt að taka fram að Brogan Davison er ekki síður mikilvægur hluti af sýningunni. Öfugt við Ármann er Brogan hins vegar dansari og danshöfundur en samband þeirra í sýningunni er samt ekki aðeins samband kennara og nemanda heldur fær maður á tilfinninguna að í gegnum upplifun Ármanns hafi Brogan einnig öðlast nýja sýn á eigin líf og feril. Hennar einlægni og hennar saga er ekki síður ástæða þess að verkið gengur upp.

Áður en „Dansaðu fyrir mig“ var fyrst sett á svið var það kynnt þannig að draumur Ármanns væri að setja verkið á svið í heimabæ sínum. Nú hefur verkið verið sýnt í Bergi á Dalvík, Tjarnaborg á Ólafsfirði og fyrir fullu húsi í Hofi á Akureyri. Fyrir þessa fjórðu sýningu í Sláturhúsinu á Egilsstöðum hefur draumur Ármanns þróast og nú vill hann dansa út um allan heim. Þannig er verkið sem slíkt ekki aðeins klukkustundarlöng sýning heldur einnig allt ferlið við sýninguna sem ekki sér fyrir endann á.

Ég vona að Ármanni verði að ósk sinni. Heimurinn þarf á fleiri draumum að halda.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.