Gavin Morrison: Alltaf ánægjulegt að vinna með fólkinu í Skaftfelli

gavin morrison nov15 webSýning þar sem listakonurnar Eyborg Guðmundsdóttir og Eygló Harðardóttir eru leiddar saman opnaði nýverið í Skaftfelli á Seyðisfirði. Stjórnandi sýningarinnar segir hafa verið fróðlegt að kynnast verkum Eyborgar og fyljast með vinnuferli Eyglóar sem að vissu leyti endurspeglaði verk Eyborgar.

„Að stýra svona sýningu veitir sjaldgæft tækifæri til að skoða hluti, eins og verk Eyborgar, sem maður hefði annars ekki haft tækifæri til að sjá.

Síðan hefur verið gaman að vinna með listamanni eins og Eygló sem hefur næmt auga fyrir verkum Eyborgar. Það eru ákveðin forréttindi að vera hluti af slíku skapandi ferli," segir Skotinn Gavin Morrison sem er listrænn stjórnandi Skaftfells í ár.

Sýningin, sem opnuð var í lok október, er sú þriðja sem Gavin stýrir á árinu. Hann segir sýninguna að miklu leyti snúast um mismunandi vangaveltur um þrívídd í myndlist.

„Verk Eyborgar gefa okkur svigrúm til að ímynda okkur þrívídd. Bæði býr hún hana til með ákveðinni tækni en ímyndunaraflið sér um afganginn.

Eygló leikur sér hins vegar með þrívíða hluti og skilar þannig þrívíðri myndlist í áþreifanlegu formi."

Fjölbreyttri áhrifavaldar

Eyborg var komin vel á fertugsaldur þegar hún hélt til Parísar að læra myndlist. Hún lauk ekki námi en leitaði í einkanámskeið hjá þekktum og virtum kennurum. Verk hennar eru almennt skilgreind talin tilheyra op-list en Gavin segir að í verkum hennar megi einnig sjá áhrif frá popplist.

Ferill hennar varð skammur því hún lést aðeins 53ja ára gömul árið 1977. Gavin segir mestu vinnuna við að setja saman sýninguna hafa verið að leita uppi verk Eyborgar.

„Af því hún lést svo ung eru verk hennar ekkert sérstaklega þekkt og ekkert heilstætt yfirlit yfir þau. Þau eru í bæði einkaeigu og opinberum söfnum og það getur verið erfitt að fá skoða verkin til að átta sig á hvernig þau muni líta út í sýningasalnum."

Eygló er fædd í Reykjavík árið 1964 og lærði myndlist og listkennslu þar og í Hollandi og hefur haldið einkasýningar bæði hérlendis og utan landsteinanna á ferli sem spannar yfir 20 ár.
Hún vann verk sín með hliðsjón af verkum Eyborgar og Gavin fylgdist með. „Það var frábært að vinna með Eygló sem horfði á verkin sem við völdum eftir Eyborgu og vann verk sem kölluðust á við þau."

Seyðisfjörður er alþjóðlegur staður

Gavin er fjórði listamaðurinn sem útnefndur er listrænn stjórnandi Skaftfells og segir hvern stjórnanda hafa sett sitt mark á sýningahaldið.

„Vanalega hafa þetta verið listamenn með tengsl við Seyðisfjörð. Ég hef komið hingað hið minnsta annað hvert ár síðustu 7-8 ár og þróað samband við Skaftfell. Mér fannst því vera heiður þegar ég var spurður að því hvort ég hefði áhuga á að taka stöðuna að mér."

Hann segist strax hafa hugsað sýningarstjórnunina út frá alþjóðlegu samhengi Seyðisfjarðar. „Staðurinn hefur þróað öflugt samband, ekki bara við aðra staði á Norðurlöndum, heldur víðar. Margir listamenn sækja Seyðisfjörð heim og hér er merkilega alþjóðlegt umhverfi miðað við stærð staðarins."

Og Gavin verður áfram listrænn stjórnandi Skaftfells á næsta ári. „Umhverfið hér er gott og alltaf gaman að vinna með fólkinu hér.

Við erum þegar byrjuð að vinna að hugmyndum fyrir næsta ár en ekkert er ákveðið enn. Skaftfell er með gestavinnustofu og fræðslustarf og við reynum að skoða hvernig hægt er að fella þetta allt sem best saman."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.