„Ég set hjarta mitt alltaf í það sem ég geri"

flora10Austfirska hönnunarfyrirtækið Flóra Icelandic Design kynnir nýja jólalínu sem inniheldur rammaþrykkt viskastykki og tauserviettur auk jólakerta.

Ingunn Þráinsdóttir hönnuður og eigandi Flóru teiknar öll mynstur og útfærir auk þess að þrykkja allt sjálf undir hönnunarhugsuninni „slow design".

Ingunn hóf að vinna með Flóru árið 2009 þegar hún fékk þá hugmynd að útbúa íslenskan jólapappír.

„Þetta var fyrsti jólapappírinn sem var með íslensku mynstri og prentaður á Íslandi og tókst mér að koma honum í verslanir, meðan annars Epal og Kraum. Upp frá þessu fór ég svo að þróa allskyns aðrar vörur og telur línan nú um fimmtán mismunandi vörur, allt frá litlum tækifæriskortum upp í handsaumaðar svuntur með silkiþrykktum mynstrum. Litla Flóru barnið mitt er orðið að unglingi."

Af hverju "slow design"?

„Fjöldaframleiðsla er of vélræn fyrir mig, „slow design" er persónulegri og sýnir stundum „fingrafar" hönnuðarins í verkinu. Varan verður dýrari fyrir vikið, en mun persónulegri og ég fíla það.

Mér finnst gaman að vinna með pappír og textíl, ég gæti aldrei sent mynstrin mín beint til framleiðanda, mér finnst ég verði að hafa puttana í þessu sjálf frá A-Ö.

Þessu þarf ég samt líklega að breyta, allavega í einhverjum tilfellum þar sem ég hef alls ekki undan að framleiða það magn sem ég þyrfti að geta gert miðað við eftirspurn."

Ingunn segir hugmyndirnar að vörunum komi mikið úr náttúrunni, en einnig út frá tilfinningastöðu hennar sjálfrar.

„Ef ég er glöð eða ástfangin þá koma líflegri og litríkari mynstur, ef mér er kalt þá er ég meira í bláu tónunum bæði í teikningunni og áprentuninni. Ef ég er döpur þá geri ég nákvæmlega ekki neitt. Ég kýs frekar að teikna mynstur með penna á blað en að teikna stafrænt en viðurkenni að ég er „tech junky" og var að fjárfesta í geggjuðu Wacom tablet teikniborði, það verður leikfang vetrarins hjá mér.

Mér er sagt að þær hafi ákveðið útlit sem minni ekki á neinar aðrar vörur, en ég tek það sem virkilegu hrósi. Ég set hjarta mitt alltaf í það sem ég geri – pæli ekki í tísku eða neinu slíku, geri það sem mér sjálfri finnst flott og hef notagildið alltaf að leiðarljósi. Það gleður mig að margir vilja eignast Flóru vöru eða gefa vinum og vandamönnum."

Nýju vörurnar auk margra annarra vöruflokka frá Flóru má nálgast í versluninni Fóu Laugavegi 2 í Reykjavík og í Húsi Handanna á Egilsstöðum. Auk þess er hægt að versla beint af Ingunni í gegnum Facebooksíðuna Flora Icelandic Design.

flora1flora2flora10

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.