„Enginn eins góður í feluleik og lygum og átröskunarsjúklingurinn"

gudrun veigaEskfirðingurinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir er ein þeirra sem stendur að stofnun samtakanna Vonarstyrkur, en þau eru stuðnings- og notendasamtök fólks sem hefur orðið fyrir áhrifum átröskunar á einhvern hátt. 

Stofnfundur verður haldinn þann 10. september í húsnæði Geðhjálpar að Borgartúni 30.


Guðrún Veiga þekkir sjúkdóminn af eigin raun, en hún háði erfiða baráttu við hann á árunum 2008-2010. Guðrún Veiga telur sig í dag hafa náð fullum bata og vill nú hjálpa öðrum sem glíma við þennan skelfilega sjúkdóm.

„Átraskanir eru gríðarlega alvarlegir geðsjúkdómar sem hafa bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar, en talið er að 1 - 3% Íslendinga glími við átraskanir á borð við lotugræðgi (bulimia nervosa) og lystarstol (anorexia nervosa). Gera má ráð fyrir að talan sé enn hærri þar sem hún nær ekki yfir þá sem eru greindir eru með lotuofátsröskun (binge-eating disorder) eða falla einhverstaðar á milli," segir Guðrún Veiga.

Guðrún Veiga segir að átröskun sé allt eins alvarleg þó svo hún nái ekki að fyrrgreinum greiningarviðmiðum og það sé ekki eingöngu ungar konur sem sjúkdómurinn nái til, þó svo tíðnin sé enn mest meðal þess hóps.

„Karlmenn eru á milli 10 og 25% þeirra sem fá átröskun. Þar sem greiningarviðmið virðast ekki greina átröskun karla með sömu nákvæmni og kvenna, má einnig ætla að þessi tala sé hærri. Átröskun getur gripið einstakling á hvaða aldurskeiði sem er og eru með eina hæstu dánartíðni allra geðraskana, því auk þess að geta valdið alvarlegum líkamlegum kvillum. En, góðu fréttirnar eru þær að þvert á það sem stundum hefur verið haldið fram, þá er hægt að ná fullum bata með viðeigandi meðferð.

Þetta eru lúmskir og lævísir sjúkdómar og það er enginn eins góður í feluleik og lygum eins og átröskunarsjúklingurinn. Þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar og aðrir læri að þekkja hættumerkin, sérstaklega í nútímasamfélagi sem að svo mörgu leyti hampar útlitsdýrkun. Það er okkur mjög mikilvægt að fræða samfélagið."


Samtökin mikilvæg aðstandendum

Guðrún Veiga segir samtökin skipta sig miklu máli persónulega vegna þess að þegar hún háði sína baráttu upplifði hún sig sem týnda. „Ég vissi ekki hvert ég gat leitað eða hvert ég átti að snúa mér. Auðvitað vissi ég að ég gæti leitað mér læknishjálpar en það var eitthvað svo stórt skref svona í byrjun.

Guðrún Veiga segir megintilgang Vonarstyrks vera að skapa vettvang þar sem fólk geti leitað eftir stuðningi og upplýsingum. „Slík uppýsingagjöf er sérstaklega mikilvæg þegar fólk er að taka þessi fyrstu skref og gera sér grein fyrir eða velta fyrir sér hvort um átröskunarvanda er að ræða.

Ég tel mikilvægt að sjúklingar geti rætt við einhvern á jafningjagrundvelli, einhvern sem jafnvel hefur háð sömu hatrömmu baráttu og getur miðlað af sinni reynslu. Sá aðili getur þá aðstoðað sjúklinginn við það erfiða skref sem læknishjálp og viðurkenning á veikindunum getur verið. Sjálf þurfti ég utanaðkomandi aðila (ekki fagaðila) til þess að fá mig til þess að sjá ljósið á sínum tíma og nú er komið að mér að vera þessi aðili.

Auk þess eru samtök af þessu tagi mikilvæg fyrir aðstandendur sem oft á tíðum vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, en til okkar verður hægt að leita eftir bæði stuðningi og fræðslu," segir Guðrún Veiga.


Ýmis úrræði standa til boða

Auk Guðrúnar Veigu standa þau Þorgerður María Halldórsdóttir og Styrkár Hallsson að samtökunum, en þau hafa öll mætt átröskun á einn eða annan hátt.

Félag fagfólks um átraskanir (FFÁ) á frumkvæði að því að til Vonarstyrks er stofnað og hafa stutt við samtökin á þessum fyrstu skrefum. Frá árinu 2006 hafa verið starfandi dag- og göngudeildir átraskana við Geðdeild Landspítalans, átröskunarteymi er starfrækt við Barna- og unglingageðdeild og jafnframt eru sjálfstætt starfandi meðferðaraðilar sem meðhöndla átraskanir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.