„Sjúklega töff að leika geimfara"

halldóra malin1Austfirska leikkonan Halldóra Malin Pétursdóttir á annasaman og spennandi vetur í vændum en hún mun bæði vera á fjölunum með Leikfélags Akureyrar og koma fyrir á skjá allra landsmanna í Stundinni okkar.

Halldóra Malin útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands árið 2006 og hefur síðan þá tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum og leikstýrt fjölda verka.


Trúðleikur er kærleiksríkt og skemmtilegt form leiklistar

Halldóra Malin mun taka þátt í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á verkinu Helgi magri sem frumsýnt verður í apríl. Um trúðleik er að ræða og á síðu leikfélagsins segir að fimm trúðar hafi í kærleika og einlægni tekið að sér það krefjandi verkefni að sviðsetja leikrit Matthíasar Jochumssonar sem var frumsýnt í skemmu á Eyrinni árið 1890 í tilefni af þúsund ára afmæli landnáms í Eyjafirði.

Að uppsetningin fyrir 125 árum hafi verið íburðarmikil og glæsileg en sú uppfærsla sé fyrsta og eina uppsetning verksins. Ástæða þess liggi í augum uppi – að verkið sé „sáraófullkomið drama" og einfaldlega ekki nógu gott. Spurningin sé því sú, hvort trúðar sem eru fróðir og forvitnir um allt sem viðkemur Eyjafirði geti náð að glæða verkið lífi? Geta trúðar sviðsett „versta" leikrit Íslandssögunnar?

„Ég er megaspennt," sagði Halldóra Malin í samtali við Austurfrétt. „Hver sýning er samsköpun leikhópsins sem útfærir alla listræna þætti hennar sjálfur, engin þeirra verður eins og því allar einstakar.

Ég er rosalega þakklát fyrir að fá að taka þátt í svo fallegu verkefni sem trúðleikur er, en hann er afar kærleiksríkt og skemmtilegt form af leiklist. Við frumsýnum ekki fyrr en í apríl en strax í febrúar komum við saman til þess að finna flöt á því hvernig við ætlum að vinna þetta."


Skemmtilegt að leika fyrir börn

Halldóra Malin á einnig eftir að vera fastagestur á heimilum landsmanna í vetur, en hún mun leika fróðleiksfúsan og seinheppin geimfara í Stundinni okkar.

„Mér finnst það sjúklega töff. Hversu töff er það fyrir son minn að eiga geimfara fyrir mömmu? Ég bara get ekki beðið eftir að hann fái að sjá þetta. Það er svo skemmtilegt að vinna fyrir börn þegar maður á börn sjálfur. Auk þess er frábært að vinna með hópnum sem stendur að Stundinni okkar, þau eru svo klár og þjálfuð í sínu."

Ljósmynd: Kormákur Máni Hafsteinsson (KOX)

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.