„Að nenna er að lifa": Gillian Haworth

dilly2 webGillian Haworth, skólastjóri Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar var í opnuviðtali Austurgluggans í síðustu viku. Hún er mikill lífskúnstner og hefur einsett sér að ferðast sem víðast og fá sem mest út úr líðandi stundu.

Gillian, eða Dillý eins og hún er jafnan kölluð, er fædd í Manchester árið 1964, en ólst upp í Kent frá þriggja ára aldri.

Hún kom frá Englandi til þess að kenna við skólann og stýra kirkjukórnum til eins árs, þá rétt liðlega tvítug. Síðan eru liðin tæp 30 ár og hefur hún því dvalið meiri part ævi sinnar á Íslandi. Dillý er gift Guðjóni Magnússyni fiðluleikara og tónlistarkennara og saman eiga þau börnin Daníel Kára og Gabríelu Rán. Fyrir átti hún soninn Ivor Storm.


Eins og fyrir Reykvíking að flytja út í Grímsey

Dillý, sem er að eigin sögn alger grúskari og kortanörd, var búin að kynna sér Ísland og áformaði að koma hingað í frí að skóla loknum. Henni var á sama tíma bent á auglýsingu þar sem óskað var tónlistarkennara til eins árs á austurhluta Íslands, nánar tiltekið á Reyðarfirði. Einhverjum sem gæti kennt grunnskólabörnum á tréblásturshljóðfæri og spilað á kirkjuorgelið. Henni bauðs starfið og tók stökkið ásamt þáverandi kærasta sínum sem fékk einnig vinnu sem tónlistarkennari.

Dillý kom því fyrst til Íslands haustið 1986. Aðspurð hvernig upplifun það hafi verið svarar hún: „Ætli það sé ekki eins og fyrir einhvern frá Reykjavík að ætla að fara og búa í Grímsey. Það var ekkert á hreinu þegar ég kom, ekki einu sinni búið að redda mér íbúð. Sem betur fer er ég mjög afslöppuð manneskja og treysti fólki fullkomlega. Það voru líka allir svo glaðir að fá mig og vinalegir."


Brátt 30 ára farsælt starf

Dillý hefur starfað óslitið sem tónlistarkennari við skólann frá því hún kom, sem nú er Tónlistarskóli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Árið 1992 tók hún við stöðu skólastjóra. Einnig hefur hún stýrt og spilað undir hjá kirkjukórnum síðan.

„Ég var algerlega mállaus fyrsta árið og fólk talaði ekki mikla ensku. Það sem bjargaði mér var að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tungumálum. Fyrir mér hljómaði íslenska eins og velska afturábak. Mér fannst málið spennandi og reyndi strax að sigta út orð og orð.

Ég tók við hópi úrvals nemenda og fólkið í kirkjukórnum var mjög jákvætt og hjálplegt. Ég skildi ekkert hvað fram fór í fyrstu, það töluðu allir í einu. Ég þekkti ekki eitt einasta lag sem verið var að æfa og þó svo ég hefði nótur var íslenski söngstíllinn afar ólíkur þeim breska og því tók sinn tíma að komast inn í málin.

Ég vissi aldrei hvar við vorum stödd í messum eða hvar ég átti að byrja að spila. Það var mér til happs að presturinn var einnig nýr þar sem séra Davíð fór í frí um leið og ég kom. Við vorum því góð saman og oft var þetta brjálæðislega fyndið, mistök á mistök ofan. Blessunarlega hafði hópurinn húmor fyrir aðstæðunum og allir reyndu sitt allra besta. Það getur þó vel verið að einhver hafi verið ósáttur og kvartað, ég hefði ekki haft hugmynd um það!"

Í dag talar Dillý ótrúlega góða íslensku en sjálf vill hún ekki gera mikið úr því. „Íslenskan mín er ekki eins góð og ég vildi hafa hana, en ég hef sætt mig við eigin heimsku og finnst málfræðivillurnar bara dúllulegar."


Gerði það sem henni þótti eðlilegra

Starfssamningur Dillý var aðeins til eins árs og því lá beinast við að hún færi til baka að þeim tíma liðnum.

„Ég var ekki tilbúin til þess að fara, þarna var ég loksins farin að skilja eitthvað í tungumálinu og komin inn í samfélagið. Það var svo margt sem mig langaði að gera og fannst ég eiga eftir, mér leið eins og ég ætti að hætta í miðju námskeiði og þótti það ekki réttur endapunktur. Ég gerði því það sem mér þótti eðlilegra og var áfram."

Dillý var 25 ára þegar hún átti soninn Ivor Storm með fyrrverandi kærasta sínum. Þau skildu þegar Ivor var eins og hálfs árs. Nokkru síðar kynntist hún Guðjóni sem kom á Reyðarfjörð til þess að kenna tónlist, þá nýkominn úr fiðlunámi og vinnu í Svíþjóð. Þau eignuðust Daníel Kára 1995 og Gabríelu Rán 1999.


Toppurinn á tilverunni að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Dillý hefur náð langt sem óbóleikari og spilar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og er vara-óbóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

„Ég hafði aldrei hugsað um sjálfa mig í þessum aðstæðum. Mér var boðið að spila með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fyrir mörgum árum og fannst það mjög skemmtilegt.

Svo var ég beðin um að koma í prufur hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, til þess að hlaupa í skarðið ef eitthvað kæmi uppá eða ef um mannmörg verkefni væri að ræða. Ég sló til, æfði mig meira en vanalega, tók prófin og komst inn.

Þetta er bæði ógnvekjandi og hrikalega gaman – eiginlega bara toppurinn á tilverunni. Þetta hefur orðið til þess að ég æfi mig miklu meira en áður, ég þarf alltaf að vera á tánum og 100% því ég get þurft að hoppa inn hvenær sem er. Auk þessa spila ég mikið hingað og þangað og finnst gaman að taka þátt í hvaða verkefni sem er."


Að taka þátt af heilum hug

Dillý átti ekki í vandræðum með að svara því hvaða sýn hún hefur á lífið. „Að nenna er að lifa", það er mottóið mitt og ég mæli með því. Að gera alltaf eitthvað frekar en ekki neitt. Að taka fullan þátt í lífinu. Ég fer bókstaflega eftir þessu og tek alltaf 100% þátt í því sem ég tek mér fyrir hendur.

Ef það er eitthvað sem veldur mér vonbrigðum eða pirrar mig þá er það þegar ég hef gert eitthvað af heilum hug og hjarta en það hefur ekki gengið upp, eða þá aðrir sem koma að verkefninu hafa ekki lagt sig eins fram. Ég þarf svolítið að passa mig að gera ekki sömu kröfur til annarra og sjálfrar mín, því eðlilega eru allir ekki með sömu áherslur."


Langar aftur til Bali

Dillý og Guðjón eru dugleg við að láta drauma sína rætast og eru nýkomin heim úr þriggja vikna ferð til Bali, en sá áfangastaður hafði verið efstur á óskalistanum um langa hríð.

„Ég upplifi mig sem „jarðarbúa" og hef gífurlegan áhuga á lífinu. Hef sérstaklega gaman af því að ferðast og er með langan lista af stöðum sem mig langar til þess að heimsækja, kynnast og upplifa. Þetta var tónlistarferð, en ég skipulegg allar okkar ferðir nákvæmlega eins og við viljum hafa þær áður en við förum af stað. Við þræddum tónlistar- og menningarviðburði og enduðum á stórri listahátíð í höfuðborginni.

Ég er matarperri alheimsins og veit fátt skemmtilegra en að smakka framandi mat. Við borðuðum því indónesískan mat í öll mál. Bali er dásamlegur staður, fólkið er mjög listrænt og reykelsisilm leggur um allt. Á þessum þremur vikum náðum við að kynnast menningunni á yfirborðskenndan hátt en langar að fara aftur og kafa dýpra."


Nýr heimur undir yfirborðinu

Síðari ár hefur Dillý unnið að því að gera hluti sem hún taldi sig ekki geta áður. „Ég læt ekkert stoppa mig og er í því að segja við sjálfa mig af hverju ég ætti ekki að geta gert þetta eða hitt. Ég til dæmis, vatnshrædda konan, snorklaði á Bali í fyrsta skiptið. Það var ótrúleg upplifun. Að stinga höfðinu í volgan sjó og sjá þessa litskrúðugu fiska synda undir yfirborðinu. Ég varð svo hugfangin að ég gæti vel hugsað mér að vera vatnshræddur kafari.

Maður er vanur því að horfa aðeins á yfirborðið og sjá ekkert. Um leið og þú stingur höfðinu í kaf blasir við annar heimur. Þetta er nákvæmlega eins og lífið – um leið og þú stígur út fyrir þægindarammann og tekst á við eitthvað nýtt upplifir þú nýja veröld."



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.