„Það var alveg brjálað að gera"

DSCF1255 webVinkonurnar Heiðdís Sara Ásgeirsdóttir og Manda Ómarsdóttir héldu myndarlega tombólu til styrktar Krabbameinsfélagi Austfjarða á Bryggjuhátíðinni á Reyðarfirði og söfnuðu alls rúmum 70.000 krónum.

„Okkur langaði bara til þess að gera eitthvað skemmtilegt og sniðugt," segir Heiðdís þegar þær stöllur eru spurðar út í tilurð uppákomunnar.

Manda segir að móðir sín, Sunna Lind Smáradóttir, hafi stungið upp á því að annaðhvort gætu þær styrkt Krabbameinsfélag Austfjarða eða Rauða krossinn.

„Okkur fannst svo oft einhver vera að styrkja Rauða krossinn þannig að við völdum Krabbameinsfélagið," segir Manda.
Vinkonurnar voru þrjá daga að safna í tombóluna. „Við gengum í hús á Reyðarfirði og söfnuðum dóti. Það gekk rosalega vel og við náðum 291 hlut. Við vildum bara allt og fengum allskonar – vettlinga, kaffikönnu, kerti, kertastjaka, poppvél, myndir, hárdót og miklu fleira," segir Heiðdís.

Aðspurðar hvort þær hafi búist við svo góðum viðbrögðum og fínum hlutum sögðu þær svo ekki vera og það hafi komið þeim á óvart. „Við höfðum aldrei haldið tombólu áður og vissum ekki að við myndum fá svona mikið af dóti. Þegar við vorum búnar að safna öllu fórum við strax að raða dótinu og merkja," segir Manda.

„Þetta var alveg eins og búð, það var svo mikið dót og mjög mikið að gera. Við þurftum alveg að hlaupa um til þess að finna vinninga, það var svo mikið af fólki að versla," segir Heiðdís og Manda tekur í sama streng.

„Mömmur okkar og fleiri komu til þess að hjálpa okkur. Við þurftum á þeim að halda, það var brjálað að gera. Svo voru sumir hlutirnir uppi á hillu og við gátum ekki náð þeim, hillurnar voru svo valtar að þær hefðu bara dottið hefðum við reynt það. Sumir komu alveg fjórum eða fimm sinnum, þeim þótti þetta svo sniðugt."


Eru strax farnar að safna í næstu tombólu

Miðinn kostaði 200 krónur og Heiðdís og Manda söfnuðu því tæpum 72 þúsund krónum. „Við fórum með peninginn og Krabbameinsfélagið ætlar að nota peninginn til þess að hjálpa fólki," segir Heiðdís.

Heiðdís og Manda láta ekki deigan síga og eru strax farnar að undirbúa næstu tombólu sem þær sjá fyrir sér í haust. „Við erum búnar að safna fullt, fullt af hlutum í næstu tombólu. Amma mín er komin með heilan kassa til þess að láta okkur hafa. Við erum að hugsa um að hafa hana á Dögum myrkurs. Við erum ekki búnar að ákveða fyrir hverja við söfnum þá, það kemur bara í ljós," segir Heiðdís og Manda tekur undir það.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.