„Rauða spjaldið á skömmina“: Drusluganga á Borgarfirði

drusluganga á borgo webUngmennafélag Borgarfjarðar (UMFB) stóð fyrir vel heppnaðri Druslugöngu á Bræðslunni á laugardaginn.

Borgfirðingurinn Dagur Skírnir Óðinsson var einn af þeim sem stóð fyrir göngunni. „Hugmyndin kviknaði aðfaranótt föstudags, þegar ég ásamt fleirum vorum að ræða hversu svekkjandi það væri að geta ekki tekið þátt í Druslugöngunni fyrir sunnan. Því var ákveðið að henda bara í eina göngu hér á Borgarfirði og til þess að bakka ekki út úr því ákvað ég að pósta viðburðinum á Facebook þá og þegar."

Druslugangan hefur verið haldin í Reykjavík að erlendri fyrirmynd síðastliðin fimm ár. Í ár var að auki gengið á Borgarfirði, Akureyri, Höfn og Ísafirði. Markmið göngunnar er að samfélagið rísi upp gegn kynferðisofbeldi og færi ábyrgð á kynferðisglæpum frá þolendum yfir á gerendur.

Ein af fáum góðu hugmyndum sem hafa kviknað klukkan fjögur að nóttu


„Þar sem gangan var á vegum UMFB hófum við hana hjá kirkjunni en enduðum á fótboltavellinum þar sem UMFB tók á móti Spyrni – við skulum hins vegar ekki ræða þann leik neitt frekar.

Þetta var bara létt og skemmtilegt. Það mættu um 70 manns í gönguna en svo bættist smám saman í hana á leiðinni, enda hrópuðum við slagorð og spiluðum háværa tónlist. Það voru um 150 manns sem enduðu á vellinum. Þar las Ingunn Snædal tvö ljóð sem hún segir sín allra druslulegustu.“

Dagur bar titilinn „yfirdrusla“ í göngunni en helsta slagorðið var „rauða spjaldið á skömmina" sem hrópað var óspart. „Það eru bæði gerendur og þolendur kynferðisofbeldis fyrir austan eins og annarsstaðar á landinu og því þótti okkur tilvalið að ganga hér til þess að sýna þolendum samstöðu og skila skömminni til gerenda þó svo við værum 700 kílómetra frá Reykjavík.“

Það var mikil ánægja með framtakið og einn sagðist hafa tárast af gleði. Við í UMFB erum alltaf tilbúin til þess að leggja góðum málefnum lið og hver veit nema við stöndum fyrir einhverju sambærilegu að ári, hvort sem það verður önnur Drusluganga eða þá einhver annar viðburður til stuðnings þörfu málefni. Segja má að þetta sé ein af fáum góðum hugmyndum sem hafa kviknað klukkan fjögur aðfaranótt föstudags."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.