Þorrablót í júlí á Borgarfirði: „Helsti hausverkurinn að útvega laufabrauð“

borgarfjordur eystriÞorrablót verður haldið á Borgarfirði eystri næstkomandi föstudagskvöld. Félagarnir hjá Já Sæll í Fjarðarborg standa að blótinu, en þeir hafa haldið ýmsa óvenjulega viðburði og skemmst er að minnast seinasta sumars, er jólin voru haldin hátíðleg um miðjan júlímánuð.

„Okkur vantaði eitthvað til að fylgja jólunum eftir og þorrablótin koma á eftir jólunum. Það er líka bara alltaf gaman á þorrablótum hérna og við viljum hafa gaman,“ sagði Óttar Már Kárason hjá Já Sæll í samtali við Austurfrétt.

Að sögn Óttars var ekki mikið vandamál að redda súrmat þrátt fyrir að komið sé mitt sumar og væntanlega er einhver kjötvinnslan í skýjunum með óvænta pöntun. „Við erum búnir að græja allan matinn, það var ekki mikið mál,“ sagði Óttar og bætti því við að helsti hausverkurinn hefði verið að útvega laufabrauð.

Skemmtiatriðin á föstudagskvöld verða með hefðbundnu þorrablótssniði. „Við ætlum að vera með allskonar skemmtiatriði og gerum sennilega talsvert grín að okkur sjálfum. Það verður líka einhver kveðskapur og svo erum við að vinna í því að fá óvæntan ræðumann á svæðið,“ sagði Óttar, en vildi ekki gefa upp hver sá ræðumaður er.

„Þetta verður bara eins og venjulegt þorrablót nema það verður alveg blíðuveður miðað við miðjan janúar,“ sagði Óttar og vonast til þess að sem flestir skrái sig á blótið, en skráningarfrestur rennur út á miðvikudagskvöld.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.