Orkumálinn 2024

Tónleikasumarið byrjar vel á Borgarfirði

soley svid webStaðarhaldarar í Fjarðarborg á Borgarfirði eystra segja sumarið fara vel af stað. Líkt og í fyrra er boðið upp á tónleika með landskunnum tónlistarmönnum um hverja helgi fram að Bræðslu.

„Þetta gekk snilldarvel í fyrra og því kom aldrei annað til greina en gera þetta aftur," segir Óttar Már Kárason, veitingamaður í Fjarðarborg.

Tekið var forskot á sæluna með 60 ára afmælistónleikum Jóns Arngrímssonar sem á þriðja hundrað gestir sóttu. Um helgi byrjaði dagskráin formlega þegar KK bandið steig á svið og í gærkvöldi var það Sóley sem þekktust er fyrir lagið „Pretty face" sem spilað hefur verið 19 milljón sinnum á YouTube.

Hún hefur hins vegar ekki komið áður fram á Austurlandi og eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem hún kemur yfirhöfuð fram alein á sviði á tónleikum.

„Við töluðum við hana í kringum tónlistarbúðirnar í vor. Hún komst ekki þá en fyrst sambandið var komið á og hún til í að gera eitthvað þá ákváðum við að reyna aftur.

Við erum mjög ánægðir með að geta boðið upp á tónleika með jafn þekktum og góðum tónlistarmanni á Borgarfirði. Þetta var drulluflott hjá henni í gærkvöldi."

Heimamenn mynda kjarna þeirra sem sækja tónleikana en gestirnir koma víðar að. „Við erum búnir að selja yfir 20 passa á alla tónleikana í sumar. Það er slatti af fólki á Borgarfirði, sumarhúsaeigendur eru mættir á svæðið, aðrir rúnta af Héraðinu og nálægum stöðum og svo flækjast stöku túristar inn."

Óttar segir ferðamannasumarið fara vel af stað á Borgarfirði. „Tilfinning mín er að það séu fleiri á ferðinni en í fyrra. Mér finnst hafa verið mjög góð umferð síðan við opnuðum."

Áfram verður haldið um næstu helgi þegar Teitur Magnússon úr Ojba rasta mætir á svæðið og á eftir honum koma Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir.

Mynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.