Orkumálinn 2024

Helgin á Austurlandi: Jazz, torfæra og allt þess á milli

jea 2014 0009 webFjölmargir viðburðir af ýmsum toga verða á Austurlandi um helgina, svo margir raunar að þeir sem þjást af valkvíða eiga eflaust erfitt með að gera upp við sig hvert skal halda. Hér að neðan er yfirlit um það helsta sem stendur Austfirðingum og þeim sem eru gestkomandi í landshlutanum til boða.


Hernámsins minnst á Reyðarfirði
Andi stríðsáranna mun svífa yfir vötnum á Reyðarfirði um helgina, en hinn árlegi Hernámsdagur er á sunnudag. Á undanförnum árum hefur það fests í sessi að minnast hernáms Reyðarfjarðar með ýmsu skemmtilegu móti á síðasta sunnudegi júnímánaðar.

Íbúasamtök Reyðarfjarðar standa fyrir Hverfis- og bryggjuhátíð á laugardag, sem hefst með Helför og Hernámshlaupi um morguninn. Síðan rekur hver viðburðurinn annan og má nefna grillpylsupartí, skottmarkað og fjölskylduvæna kvöldvöku.

Dagskrá sunnudagsins verður sérlega hátíðleg í ár í tilefni af 20 ára afmæli Íslenska stríðsárasafnsins. Hátíðin hefst með hernámsgöngu sem leggur af stað frá verslunarmiðstöðinni í miðbæ Reyðarfjarðar kl. 14:00 og munu m.a. loftvarnarflautur og flugvélagnýr kalla fram hughrif tímabilsins á meðan á göngunni stendur. Henni lýkur svo við safnahúsið, þar sem hátíðardagskráin fer fram kl. 15:00 - 20:30.

Nánari upplýsingar um viðburði helgarinnar á Reyðarfirði má nálgast á heimasíðu Fjarðabyggðar.

Jasshátíð Egilsstaða á Austurlandi
Hin árlega Jazzhátíð Egilsstaða verður haldin á laugardag í Valaskjálf, en húsið hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er mjög vel í stakk búið fyrir hverskonar tónlistarflutning.

Austurfrétt fjallaði um Jazzhátíðina fyrr í vikunni og sagði Jón Hilmar Kárason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar að dagskráin verði fjölbreytt og skarti ýmsum tónlistarmönnum og hljómsveitum. Meðal flytjenda eru Jack Magnet Quintet, Björn Thoroddsen og Garðar Eðvalds og stórveit, en Eskfirðingurinn Garðar er einmitt í yfirheyrslu vikunnar hér á Austurfrétt. 

Garðar var að útskrifast úr Tónlistarskóla FÍH í vor og heldur útskriftartónleika sína í Tónlistarmiðstöð Austurlands, á Eskifirði í kvöld. Þeir tónleikar hefjast kl. 20:00.

Miðasala á Jazzhátíðina fer fram á www.tix.is og á veitingastaðnum Salt á Egilsstöðum. Frekari upplýsingar er að finna á www.jea.is.

120 ára kaupstaðarafmæli Seyðisfjarðar
Í ár eru 120 ár frá því að Seyðisfjörður hlaut kaupstaðarréttindi og haldið er upp á tímamótin með veglegri dagskrá sem hófst í gær og stendur fram á sunnudag.

Samfélagið á Seyðisfirði varð fyrir miklum missi í vikunni er ung stúlka lést í bílslysi og eiga margir um sárt að binda. Reikna má með einhverjum breytingum frá upphaflegri dagskrá. Seyðfirðingar eru hvattir til að taka þátt í hátíðahöldunum, hittast og styðja hvorn annan.

Dagskrá kaupstaðarafmælisins má finna hér.

Torfærukeppni við Egilsstaði
Torfærukeppni Akstursíþróttaklúbbsins START á Egilsstöðum verður haldin á laugardag í Ylsgrúsum við Mýnes. Keppnin hefst kl. 13:00 og sér útvarpsmaðurinn geðþekki, Andri Freyr Viðarsson um að kynna og lýsa því sem fram fer.

Í tilkynningu frá aðstandendum keppninnar er lofað biluðu fjöri og látum. Það kostar 1500 krónur inn, posi verður á staðnum en það flýtir fyrir að mæta með pening.

Sóley spilar í Fjarðarborg
Tónlistarkonan Sóley kemur fram í Fjarðarborg á Borgarfirði eystri í kvöld og eru tónleikar hennar hluti af tónleikaröð sumarsins hjá Já Sæll.

Sóley hefur undanfarin ár notið mikilla vinsælda bæði hér heima og erlendis. Hún gaf nýverið út nýja plötu sem ber nafnið Ask the Deep og mun hún flytja lög af henni og eldri plötum sínum á tónleikunum, sem hefjast kl. 21:00.

Hér að neðan má heyra lagið Pretty Face, sem er að öllum líkindum hennar þekktasta lag og hefur verið spilað tæplega 20 milljón sinnum á myndbandasíðunni YouTube.



Tré gróðursett til heiðurs Vigdísar Finnbogadóttur
Skógræktarfélög og sveitarfélög um allt land, með stuðningi Sambands sveitarfélaga á Íslandi, minnast þess á laugardag, að 35 ár eru liðin frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Gróðursettar verða þrjár plöntur á hverjum stað og hefst athöfn í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum kl 15:30.

Fyrirhugað er að gróðursetja þrjár trjáplöntur, stæðileg birki af yrkinu Embla, um 1,5-1,8 m. á hæð í Tjarnargarðinum. Um gróðursetninguna sér Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar, ásamt þremur fulltrúum æskunnar og framtíðarinnar.

 

Mynd: Frá Jazzhátíð Egilsstaða árið 2014

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.