Orkumálinn 2024

Héraðsmaður hjólar hringinn: Þetta hélt ég myndi ekki gera!

wowcyclothon 2015 0004 webHéraðsmaðurinn Sigurður Ormarsson hafði hvorki lagt stund á hjólreiðar né hlaup þegar nemi hans skoraði á hann að hjóla hringinn um kringum Ísland. Lið þeirra í hjólreiðakeppni Wow, Den-Ice ormarnir, brunaði í gegnum Egilsstaði í kvöld.

„Þetta var ekki það sem ég hélt ég myndi gera," sagði Sigurður, sem starfar í Danmörku, í samtali við Austurfrétt á Söluskálaplaninu í kvöld. Þar tóku vinir hans og vandamenn af Héraði á móti honum og öðrum úr liðinu með kjötsúpu.

„Doktorsnema mínum úr DTU fannst ég farinn að verða heldur feitur og fannst að við þyrftum að gera eitthvað í málinu. Því spurði hann mig hvort við ættum ekki að hjóla í kringum Ísland og ég tók áskoruninni."

Doktorsneminn Finn Larsen er með í liðinu, vinur hans Anders Flackeberg og sonur Sigurður, Jón Sindri. „Danirnir hafa hjólað gríðarlega mikið og hlaupið ein 30 maraþon. Ég hef aldrei hlaupið eða hjólað neitt en ég skal nú komast þetta!"

Þá fylgja liðinu bílstjórarnir Hreinn Ólafsson, sem ættaður er af Héraði og Annett Krog Larsen. Hópurinn lagði af stað úr Reykjavík um kvöldmatarleytið í gær og er því búinn að vera um sólarhring á leiðinni. Áætlað er að koma aftur til borgarinnar annað kvöld.

„Við fórum nokkuð skarpt af stað í byrjun en erfiðast var á Jökuldalnum og Jökuldalsheiðinni. Það var hroðalega mikill mótvindur. Það var heldur ekkert létt að hjóla upp heiðarnar fyrir norðan."

En þótt á móti blási og leiðirnar liggi upp í mót er létt yfir hópnum. „Þetta er líka tilraun á því hvort hægt sé að verða svo þreyttur að maður hafi ekki lyst á bjór. Okkur í liðinu finnst öllum bjór mjög góður."

Bílinn prýða auglýsingar frá fyrirtækjum fyrir austan, Rafey, Brúnási, Húsi handanna, Húsalögnum og VHE. Liðið hefur lagt sjálft út fyrir kostnaði og því renna styrkirnir beint til byggingar Batamiðstöðvar á geðsviði Landsspítalans en safnað er áheitum til hennar með keppninni í ár.

Ormarnir eru í ellefta sæti yfir þau lið sem safnað hafa mestum pening með tæpar 200.000 krónur. „Við erum afar þakklátir fyrir stuðninginn og stoltir af því hversu vel hefur gengið," sagði Sigurður.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.