Austfirðingar taka þátt í Listahátíð í Reykjavík

thorunn greta sigurdardottirTónskáldið Þórunn Gréta Sigurðardóttir og myndlistarmaðurinn Þór Vigfússon eru með viðburði á vegum Listahátíðar í Reykjavík um helgina.

Þór, sem býr og starfar á Djúpavogi opnaði í dag einkasýninguna Víxlverkun í Höggmyndagarðinum á Nýlendugötu.

Hann hefur undanfarið safnað saman ólíkum hlutum úr stáli sem fela í sér misljósa notkun og virkni. Úr varð höggmynd sem Þór teflir á móti litaformfræðilegum flötum sem líta má á sem endurspeglun strúktúrsins en á sama tíma endurspeglar strúktúrinn fletina. Víxlverkunin á sér þannig stað á bókstaflegan jafnt sem og á huglægan hátt.

Þá verða um helgina flutt tvö tónverk eftir Þórunni Grétu en hún veitir Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði.

Á tónleikum annað kvöld í Norðurljósasal Hörpu flytur Kristinn Sigmundsson, einn þekktasti óperusöngvari Íslendinga, verkið KOK. Það er unnið upp úr samnefndri ljóðabók Kristínar Eiríksdóttur og samið að beiðni hátíðarinnar fyrir Kristinn við undirleik hörpu og fiðlu.

Ljóðin fjalla um samband eða sambönd og varpa ljósi á átök, ytri sem innri. Þau eru mjög taktföst og byggja að hluta á klifunum svo að leitast var við að spegla þá eiginleika í hljóðheiminum.

Á morgun og næsta sunnudag leikur Berglind María Tómasdóttir í Árbæjarsafni einnig verk eftir Þórunni Grétu og fleiri tónskáld á hljóðfærið lokk, sem er afsprengi langspils og rokks en uppruna þess má rekja til Íslendingabyggða í Vesturheimi.

Konur munu einkum hafa leikið á lokkinn, ef til vill vegna skyldleika við gamla góða spunarokkinn sem gekk í endurnýjun lífdaga með tilkomu lokksins, fjarri heimahögum og íslenskri ull.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.