„Ótrúleg tilfinning að vera treyst fyrir ævistarfi pabba": Díana Mjöll Sveinsdóttir í yfirheyrslu

diana mjoll sveinsdottirDíana Mjöll Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Tanna Travel, var áberandi á vefmiðlum landans í liðinni viku eftir að hún skrifaði pistilinn „Ég get ekki meir" – en hann má lesa hér.

Díana Mjöll er uppalin á Eskifirði þar sem hún býr í dag ásamt fjölskyldu sinni. Hún er með alþjóðlegt IATA/UFTAA próf í ferðamála- og ferðamarkaðsfræði hjá Ferðamálaskóla Íslands, auk þess að vera með rútupróf, en hún hefur gripið í akstur hjá Tanna Travel gegnum tíðina.

„Ég naut þeirra forréttinda að fá að ferðast mikið þegar ég var barn, en Sveinn pabbi minn, rak þá þegar rútufyrirtæki og fékk ég að þvælast mikið með foreldrum mínum. Í þessum ferðum kynntist ég mörgu góðu fólki, sem er enn í dag góðir vinir mínir þrátt fyrir mikinn aldursmun – en ég tel hverju barni hollt að læra að umgangast sér eldra fólk og bera virðingu fyrir því. Þetta voru mínar bestu stundir og ég ylja mér oft við minningarnar."

Fyrir utan það að hafa starfað hjá Tanna Travel, hefur Díana Mjöll unnið á hóteli, hjá Landsbanka Íslands og Markaðsstofu Austurlands. Hún sat einnig í stjórn Markaðsstofunnar og er nú formaður Ferðamálasamtaka Austurlands.

„Ég starfa sem framkvæmdastjóri Tanna Travel á Eskifirði, tók við því starfi af föður mínum á 20 ára afmæli fyrirtækisins 2013. Hann hefur verið í bransanum frá því 1970 og það er ótrúleg tilfinning að vera treyst fyrir ævistarfi pabba. Starfið er krefjandi og spennandi, en við vinnum saman fjölskyldan, mamma, pabbi og maðurinn minn, ásamt fleira frábæru fólki.

Ferðaþjónustan á Austurlandi er stödd á tímamótum, það eru mörg tækifæri framundan og þá er alltaf gott að staldra við og hugsa um hvað maður vilji verða þegar maður verður stór. Við Austfirðingar eru svo heppnir að vera farin af stað með verkefni sem heitir „Hönnun áfangastaðarins Austurlands" – þar gefst okkur virkilegt tækifæri til að stýra því hvert við ætlum að stefna. Ég get ekki annað en hvatt alla til að stökkva á vagninn og taka þátt, en það munu verða haldnir allskonar fundir í tengslum við það. Austurland er flottur áfangastaður og við höfum alla burði til að gera flottari hluti en okkur órar fyrir.

Fullt nafn: Díana Mjöll SVeinsdóttir

Aldur: 40 ára

Starf: Framkvæmdastjóri Tanna Travel

Maki: Sigurbjörn Jónsson

Börn: Jökull Logi (16), Svanhildur Sól (13), Sveinn (9) ára, Hundurinn Skoppa (4)

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Kósa mig í sófanum með góða bók og rauðvínsglas.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Veturinn, hann er svo mikið ævintýri.

Hvað eldar þú oft í viku? Vandræðalega sjaldan.

Mesta undur veraldar? Fæðing.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta flogið.

Hver er þinn helsti kostur? Að skipuleggja.

Hver er þinn helsti ókostur? Óþolinmæði.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Erfitt, en ég verð að velja Snæfell, þaðan á ég margar góðar minningar úr ferðalögum og þar var elsti sonur okkar skírður.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Mjólk, egg og sítrónu.

Hvaða töfralausn trúir þú á? Ástina.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Úff, mér þykir allur matur góður.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Ég tek auðvitað dæmi um þegar mér tekst vel upp. Vakna 05:40, fer í sund, borða morgunmat með krökkunum, mæti í vinnu og reyni að láta mér verða eitthvað úr verki. Borða kvöldmat, sem ég elda stundum – en er svo ótrúlega heppin að börnin og Sigurbjörn eru ekki síðri en ég í eldhúsinu, þannig að við skiptum þessu bróðurlega á milli okkar. Fer svo í háttinn á milli tíu og ellefu.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Laugardagur, þá er nammidagur.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Jesú Kristur, svo ótrúlega margt sem ég þarf að spyrja hann um.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika.

Draumastaður í heiminum? Suður-Afríka.

Hver eru þín helstu áhugamál? Mín helstu áhugamál er fjölskyldan mín, ferðalög, útivist og heilsa.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Ég er alæta á músík, en er þó alltaf þungarokkari inn við beinið.

Settir þú þér áramótaheit? Nei, er bara með allskonar heit allt árið.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Sinna skemmtiferðaskipakomum á Seyðisfirði og Eskifirði.




Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.