Orkumálinn 2024

Sjávarútvegsskóli Austurlands fyrir ungmenni á sex stöðum í sumar

sjavarutvegsskoli webSjávarútvegsskóli Austurlands verður starfræktur á sex stöðum í sumar, fyrir ungmenni fædd árið 2001.

Sumarið 2013 hóf Síldarvinnslan að starfrækja Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar. Skólastarfið stóð yfir í tvær vikur og fengu nemendur greidd námslaun, sambærilegum þeim sem eru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar.

Mikill áhugi reyndist vera á skólastarfinu, en áhersla var lögð á að fræða ungmennin um sögu sjávarútvegs og fiskvinnslu, gæða- og markaðsmál, starfsmannamál og menntun starfsfólks í sjávarútvegi og tengdum greinum. Þá var farið í vettvangsheimsóknir um borð í skip, fiskvinnslufyrirtæki og til fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn.

Starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar vakti athygli og önnur fyrirtæki í Fjarðabyggð sýndu því áhuga að taka þátt í skólastarfinu. Niðurstaðan varð sú að Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tók til starfa í fyrra og auk sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju og Loðnuvinnslunnar komu Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú til liðs við Síldarvinnsluna. Efnt var til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir voru árið 2000 og var kennt á þremur stöðum í sveitarfélaginu.

Í ár mun skólinn enn færa út kvíarnar og verður starfssvæði hans allt Austurland, eða svæðið frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Auk sveitarfélaga við sjávarsíðuna mun Fljótsdalshérað taka fullan þátt í skólahaldinu. Í samræmi við þetta hefur nafni skólans verið breytt og ber hann nú heitið Sjávarútvegsskóli Austurlands.

Síldarvinnslan hlaut viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins sem menntasproti ársins í febrúar á þessu ári fyrir frumkvæði sitt við að koma Sjávarútvegsskólanum á fót.


Lítil áhersla á þessa undirstöðuatvinnugrein


Sylvía Kolbrá Hákonardóttir er önnur tveggja þeirra sem er í forsvari fyrir skólann. „Meginástæða þess að við fórum af stað með þetta er sú að skólakerfið leggur litla áherslu á fræðslu um þessa undirstöðuatvinnugrein. Einnig hefur verið bent á að í sjávarplássum nútímans er hægt að alast upp án þess að sjá nokkurn tímann fisk.

Áður fyrr var öll starfsemi tengd sjávarútvegi nálægt fólki; afla var landað á hverri bryggju, beitt í fjölda skúra og vinnsla á fiski fór jafnvel fram undir beru lofti. Nú er öldin önnur; veiðiskipin eru stærri og færri en áður, aflanum landað á lokuðum hafnarsvæðum og vinnslan fer fram innanhúss þar sem farið er eftir ströngum reglum um hreinlæti og gæði."


Fyrir ungmenni fædd árið 2001

Ungmenni fædd 2001 gefst kostur á að sækja um Sjávarútvegsskólann, en ráðgert er að kenna á sex stöðum – í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði, Höfn og Seyðisfirði. Nemendum frá þeim byggðarlögum, sem ekki verður kennt í, verður ekið til og frá kennslustað.

Kennslustaðir og dagsetningar verða eftirfarandi:
  • Neskaupstaður dagana 8 - 12. júní
  • Eskifjörður dagana 22 - 26. júní
  • Fáskrúðsfjörður dagana 6 - 10. júlí
  • Seyðisfjörður dagana 20 - 24. júlí
  • Vopnafjörður dagana 27 - 31. Júlí
  • Höfn – auglýst síðar
Nánari upplýsingar um skólahaldið er að finna á www.sjavarskoli.net og þar verður unnt að skrá sig í skólann.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.