Orkumálinn 2024

„Maki: Já takk": Unnar Geir Unnarsson er í yfirheyrslu vikunnar

unnar geir unnarsson studioUnnar Geir Unnarsson var í fréttum vikunnar þegar tilkynnt var að hann hafi verið ráðinn sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.

Unnar Geir er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum, með tveggja ára viðkomu á Djúpavogi á æskuárunum. Nítján ára gamall flutti hann til Reykjavíkur til þess að vinna við leikhúsin, þar sem hann starfaði sem sviðsmaður og lærði söng.

Unnar Geir lærði leiklist og leikstjórn í London. Eftir námið flutti hann í Kópavoginn þar sem hann hefur starfað sem sjálfstæður sviðslistamaður og yoga-kennari. Einnig er hann að skrifa mastersritgerð í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.

Um Hvítasunnuna flytur Unnar Geir „aftur heim" og hyggst hreiðra um sig í Selásnum á Egilsstöðum.

„Nýja starfið leggst ótrúlega vel í mig. Forstöðumaður menningarmiðstöðvarinnar sér um rekstur hennar setur niður stefnu og áætlanir fyrir komandi ár, í samstarfi við menningarfulltrúa og nefndir.Menningarmiðstöðin sinnir öllum listgreinum en áhersla er lögð á sviðslistir. Hinn angi starfsins er að hafa umsjón með Sláturhúsinu sem hýsir skrifstofur miðstöðvarinnar, vinnustofur listamanna, vegahúsið, sýningarsali og listamannaíbúð. Ég hlakka bara til að fara að byrja – þetta verður eitthvað!"


Fullt nafn: Unnar Geir Unnarsson

Aldur: 35

Starf: Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Sláturhússtjóri.

Maki: Já, takk.

Börn: Ekki svo ég viti, frekar ólíklegt.

Besta bók sem þú hefur lesið? Ilmurinn eftir Patrick Suskind.

Hver er þinn helsti kostur? Ég nenni að hafa gaman og nenni ekki kjaftæði.

Hver er þinn helsti ókostur? Get verið óþolinmóður og hvatvís.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Fer í saltpottinn í Laugardalslauginni, loka augunum og þakka fyrir allt fallegt og gott. Dökkt súkkulaði og blek svart kaffi er líka trít sem gerir alla daga góða og alla gesti skemmtilega.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Laugardagsmorgun, að vakna og vita að ég get kúrt eins lengi og ég vil.

Mesta undur veraldar? Manneskjan.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Langaði alltaf að vera ósýnilegur þegar ég var lítill svo ég gæti fari í kaupfélagið og borðað allt nammið. En núna væri ég til í að geta flogið.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ingólfur Arnarson, ég myndi biðja hann um finna frekar Kúbu, það er betra veður þar.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Húmor fyrir sjálfum sér og öðrum. Fólk sem tekur ábyrgð, finnst mér heillandi.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Vaska upp, það er óþolandi. Þetta er allt svo ólögulegt og endalaust. Svo eru vaskar hannaðir fyrir dverga, þannig ég fæ bara í bakið á þessu, gamli maðurinn.

Draumastaður í heiminum? Lyngi vaxinn bali í góðu veðri, hrossagaukur syngur, vinir spjalla í hálfum hljóðum meðan ég loka augunum og dorma.

Ef þú ættir eina ósk? Að þegar ég dey, geti ég horft sáttur á lífið sem ég hef átt.

Hvað bræðir þig? 100 gráður og yfir.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Rauð epli, ólífur og blámyglu ost.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Mér sýnist ég þurfa pakka og koma draslinu í tímabundna geymslu. Svo er júróvision partý á laugardaginn.

 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.