Austurland til fyrirmyndar: Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda

nyskopunarkrakkar webGrunnskólar af Austurlandi eiga hátt hlutfall þeirra nemenda sem komust áfram í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda og taka þátt í vinnusmiðju sem verður í Háskólanum í Reykjavík.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. 6. og 7 bekk í grunnskóla, en keppnin hefur verið haldin í 23 ár.

Um 1975 hugmyndir bárust frá yfir 3000 hugmyndasmiðum af öllu landinu. Markmið keppninnar er að gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir.

Matsnefnd NKG fór yfir allar hugmyndirnar og dæmdi eftir hagnýti, nýnæmi og raunsæi og valdi að lokum 54 hugmyndir til þess að taka þátt í vinnusmiðjunni sem fram fer í lok maí. Þar fá nemendur tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar og þjálfa sig í ferlinu „frá hugmynd að vöru til verðmæta", undir dyggri leiðsögn sérfræðinga í hverju fagi.


Stefnan fyrir austan virðist mjög skýr

Anna Þóra Ísfold, framkvæmdastjóri NSK, er afskaplega ánægð með hlut Austurland í keppninni í ár. „Austurland er með fyrirmyndar þátttöku og augljóst að sú stefna hefur verið tekin í fjórðungnum að kenna nýsköpun, en skólarnir eru að senda inn fleiri en eina hugmynd á nemenda að jafnaði. Það er kveðið á um nýsköpunarkennslu í Aðalnámsskrá, en misjafnt hvort skólarnir fylgja því eftir, eða á hvaða stað þeir eru staddir. Stefnan fyrir austan virðist mjög skýr og er það afar ánægjulegt."

Frá Grunnskóla Reyðarfjarðar komust þrjár tillögur áfram frá sjö nemendum. Grunnskólinn á Egilsstöðum á tvær hugmyndir í vinnusmiðjunni, Grunnskólinn í Brúarási eina og Grunnskóli Vopnafjarðar eina einnig.


Tölvuleikir og „öpp" vinsæll efniviður

Ásta Ásgeirsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Reyðarfjarðar, segir nýsköpun hafa verið inn á stundarskrá í skólanum í þrjú ár – en öll árin hafa þau átt tillögur sem hafa komist áfram í keppninni. „Það er gegnumsneytt mikil ánægja með nýsköpunarkennslu meðal nemenda. Við sjáum árangur af starfinu og þau eru mikið að leita hugmynda til þess að skoða og framkvæma. Þau eru mikið að vinna með tölvuleiki og „öpp", en þar eru þau auðvitað komin inn á sitt áhugasvið sem gerir þau ennþá áhugasamari."

Framlag nemenda Grunnskóla Reyðarfjarðar eru tölvuleikurinn Sick, „appið" New discoverment og fjarstýrður snjómokstursbíll með sóp.

Kátir fulltrúar Grunnskóla Reyðarfjarðar. Frá vinstri: Bríet Sigurjónsdóttir, Fanney Ösp Guðjónsdóttir, Marta Lovísa Kjartansdóttir, Jónas Þrastarson, Kristófer Björnsson og Bóas Kár Ketilsson. Á myndina vantar Björn Leví Ingvarsson. Ljósm: Kristborg Bóel


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.