Ólafur Björnsson framkvæmdastjóri Hammondhátíðar í yfirheyrslu: Almenn gleði verður höfð að leiðarljósi

olafur bjornssonHammondhátíð Djúpavogs hófst í gær á sumardaginn fyrsta, og stendur yfir alla helgina. Þetta er í tíunda skipti sem hún er haldin og er því um afmælishátíð að ræða.

Hammondhátíðin hefur það að meginhlutverki að heiðra og kynna Hammondorgelið. Er það gert með því að fá tónlistarmenn, allt frá heimamönnum til landsþekktra, til að leika listir sínar og er Hammondorgelið rauði þráðurinn í gegnum alla dagskrána.

Langt undirbúningsferli

Ólafur Björnsson er framkvæmdarstjóri Hammondhátíðarinnar. Hvernig hefur undirbúningurinn fyrir hátíðina gengið? Er allt klárt?„Undirbúningur hefur gengið gríðarlega vel, allir hafa lagst á eitt og útkoman eftir því. Þetta er að sjálfsögðu langt undirbúningsferli, í raun hefst undirbúningur um leið og síðasta hátíð klárast. Síðustu 4 mánuðir hafa verið annasamir og við erum svakalega ánægð að hátíðin sé nú loksins byrjuð. Síðasta reddið átti sér stað rétt fyrir kl. 18:00 í gær og þá gátum við formlega sagt að allt væri klárt,“ segir Ólafur í samtali við Austurfrétt

Allt samkvæmt áætlun

Hvernig leggst helgin í þig? „Gríðarlega vel. Tónninn var svo sannarlega sleginn á upphafskvöldinu í gær þar sem Tónskóli Djúpavogs, Kiriyama Family og AmabAdama fóru á kostum. Eðli málsins samkvæmt hossuðu sér allir saman í síðasta laginu hjá AmabAdömunum og það var nokkuð magnað að sjá 250 manns sleppa sér í dansinum og gleðinni. Veðurspáin gæti vissulega verið okkur hagstæðari en allt hefur gengið samkvæmt áætlun og við erum full bjartsýni fyrir komandi dögum.“

Í skýjunum með þetta

Nú er löngu uppselt á alla viðburði. Hvernig líður þér með þessar viðtökur? „Við erum að sjálfsögðu í skýjunum með þetta. Við erum náttúrulega með dagskrá sem selur sig nokkurn veginn sjálf, en að selja upp svona löngu fyrir hátíðina er kannski ekki alveg það sem við áttum von á og það var að sjálfsögðu frábær tilfinning. Það er ekki sjálfgefið að selja samtals 1000 sæti á tónlistarhátíð á landsbyggðinni í apríl.“

Hátíðin eldist vel

Hvað finnst þér best við Hammondhátíðina? „Þessi hátíð er náttúrulega einstök á heimsvísu, því samkvæmt því sem við komumst næst er þetta eina hátíðin í heiminum sem tileinkuð er þessu frábæra hljóðfæri. Fyrir utan hversu frábær hún er, vel sótt og allir kátir á meðan henni stendur, finnst mér sennilega best hversu vel hún eldist,“ segir Ólafur að lokum sem er í yfirheyrslu vikunnar.

Sjá nánar um Hammondhátíðina HÉR


Fullt nafn: Ólafur Björnsson
Aldur: 33 ára
Starf: Tæknistjóri Djúpavogshrepps og framkvæmdarstjóri Hammondhátíðar
Maki: Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir
Börn: Hilmir Dagur 8 ára, Birgitta Björg 6 ára og Antonía Elísabet 3 ára.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Minn dásamlegi heimabær, Borgarfjörður eystri. Sandarnir á Búlandsnesi fylgja fast á eftir.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum?
AB-mjólk, undanrennu og sítrónur.

Hvaða töfralausn trúir þú á?
Kurteisi, tillitssemi og umburðarlyndi geta leyst ótrúlegustu vandamál.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Allur fiskur finnst mér dásamlegur og ég elska grænmeti, ávexti, hnetur og fræ. Pizzan sem konan mín gerir handa mér er líka roooosalega góð.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú?
Tek mér langa göngu með myndavélina. Smá sundsprettur á eftir er svo toppurinn.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju?
Mér finnst þær allar frábærar á sinn hátt, get ekki gert upp á milli þeirra.

Hvað eldar þú oft í viku?
Ég hugsa að ég sé nokkuð duglegur að elda, 2-7 sinnum í viku er sennilega nokkuð nærri lagi.

Hvernig líta kosífötin þín út?
Göngugallinn, gönguskórnir, húfa og vettlingar.

Hvað bræðir þig?
Konan mín – ítrekað. Mér finnst hún æði.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn?
Salatbarinn í Hagkaup. Án nokkurs vafa.

Hvernig drekkur þú kaffið þitt?
Mjög reglulega. Stundum óþarflega.

Syngur þú í sturtu?
Ég held ekki.

Hvernig tónlist hlustar þú á?
Góða tónlist. Mér leiðist leiðinleg tónlist. Tónlistarsmekkurinn er býsna breiður, allt frá Spilverkinu til Pantera. Mínar eftirlætis hljómsveitir eru hins vegar Pearl Jam, Pink Floyd, The Mars Volta og Nýdönsk.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Hann er framúrskarandi hefðbundinn. Ég er sennilega hefðbundnasti maður í heimi. Af og til brydda ég upp á einhverju óhefðbundnu en það er afskaplega sjaldan. Mér líkar rútínan og elska að geta verið heima hjá mér með fjölskyldunni að vinnudegi loknum.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju?
Það er eitthvað við þá alla en sunnudagur er sennilega jafnbesti dagurinn.

Hvað ætlar þú að gera um helgina?
Ég ætla að njóta þeirra tónlistaratriða sem við í Hammondhátíðarnefnd ætlum að bjóða upp á, ég verð sennilega mikið í símanum þess á milli en reyni eins og ég get að fara í sund því það er allra meina bót. Almenn gleði verður höfð að leiðarljósi. Auk þess er þétt utandagskrá allan daginn, alla dagana og vonandi næ ég að kíkja á eitthvað af því.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.