Pressan er öll á þeim; Lið Fljótsdalshéraðs keppir til úrslita í Útsvari í kvöld

fljotsdalsherad utsvar 01042015Lið Fljótsdalshéraðs keppir í kvöld við Reykvíkinga til úrslita um Ómarsbjölluna í spurningakeppni sveitarfélaganna, Útsvari.

Sem fyrr er lið Fljótsdalshérað skipað þeim Björgu Björnsdóttur, Eyjólfi Liðið skipa þau Björg Björnsdóttir, Eyjólfur Þorkelsson og Þorsteinn Bergsson.

Vinnum eins og einn hugur í þremur sálum

Austurfrétt náði tali af Eyjólfi í morgun, sem var pollrólegur að vanda.

„Við erum bara mjög vel stemmd. Steini er að spila Bridge fyrir austan fjall og allt eins og það á að vera, en það hefur hann gert jafnhliða keppninni að undanförnu og gefist afar vel. Við munum hittast á leynilegum stað á eftir og æfa helstu leikkerfi, sem og skoða gamlar upptökur af andstæðingunum. Við erum afar þéttur hópur og vinnum eins og einn hugur í þremur sálum," segir Eyjólfur.

Aðspurður hvort það sé meira taugatrekkjandi að mæta Reykvíkingum en öðrum segir Eyjólfur svo ekki vera. „Pressan er öll á þeim, höfuðborgin sjálf að keppa við litla Fljótsdalshérað. Svo var nú keyrt aftan á mig í borgarumferðinni í vikunni, það er spurning hvort það hafi verið útsendari frá liðinu að reyna að koma okkur úr jafnvægi. Annars truflar það mig og okkur ekki neitt að vera í beinni útsendingu þegar á hólminn er komið – þetta erum bara við, Sigmar og Þóra, eins og á spjalli á kaffistofunni."

Hvað með lopapeysuna?
Eyjólfur segir það stöðugt koma á óvart hve mikill áhugi heimamanna sé fyrir keppninni. „Ég segi nú ekki að ég komist ekki að því að spyrja sjúklinga um líðan sína þegar þeir mæta til mín, en svona allt að því. Viðtölin eru oftar en ekki opnuð með Útsvarsumræðum, um hvað sé gaman að fylgjast með þessu og hvað við gætum gert öðruvísi – þannig að það er svolítið eins og ég sé að mæta í ráðgjafaviðtal til kúnnanna minna," segir Eyjólfur og hlær.

Ekki var hægt að sleppa Eyjólfi nema spyrja út í lopapeysuna góðu sem hann hefur klæðst í öllum útsendingunum. „Lopapeysan já. Það er tvennt með hana. Annars vegar er ég gríðarlega ánægður með hana, en mamma prjónaði hana og ég valdi litina. Hins vegar er þetta mín leið til að koma inn jákvæðri ímynd héraðslækninga og gera þær eftirsóknarverðan kost – en hvað er íslenskara en lopapeysan fyrir ánægðan héraðslækni. Svo heldur hún mér mjúkum í leiknum."

Við eigum von á hörku viðureign í kvöld
„Ég held að spennustigið sé nú talsvert hærra hjá keppendum en okkur sem vinnum við þáttinn, en því er ekki að neita að við erum mun spenntari fyrir úrslitaþættinum en öðrum, eins og gefur að skilja," segir Sigmar Guðmundsson, annar umsjónarmanna Útsvars.
„Það er alveg ótrúlegt hve áhuginn fyrir þessum þætti er alltaf mikill, hann er undantekningalaust einn allra vinsælasti þáttur landsins í hverri viku og oft sá vinsælasti. Þannig hefur það verið frá því hann fór í loftið.

Við eigum von á hörkuviðureign í kvöld, þetta eru tvö frábær lið sem hafa reyndar farið með ólíkum hætti í úrslitin. Fljótsdalshérað hefur haft nokkra yfirburði í sínum viðureignum á meðan Reykvíkingar hafa tekið þetta á seiglunni, ekki síst í síðasta þætti þar sem þau tryggðu sér sigurinn á lokametrunum eftir að hafa verið undir frá upphafi. Þetta verður spennandi, engin spurning."

 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.