Svona sáu fulltrúar ferðaþjónustunnar Austurland – Myndir

saf 2015 0013 webÞing Samtaka aðila ferðaþjónustunnar var haldið á Egilsstöðum á fimmtudag og á föstudag kynntu austfirskir ferðaþjónustuaðilar vörur sínar á sýningu í Fjarðabyggðarhöllinni. Austurfrétt fylgdist með því hvernig gestirnir upplifðu Austurland.

Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Talnakönnunar sem meðal annars gefur út Ský og Iceland Review, var fundarstjóri og skrifaði um upplifun sína á Heimur.is en Benedikt er ættaður frá Norðfirði.

Yfirskrift fundarins var „tækifærin liggja á landsbyggðinni" en kynningarefni fundarins vakti athygli Benedikts. Það sýnir einkabíl á leið úr bænum en rútu á leið þangað „frá tækifærunum."

Þá segir hann frá ræðu iðnaðarráðherra sem hafi „tekið Sigmund á fundinn" sem hafi sagt „fundarmönnum hvað þeir væru vitlausir og sjálfum sér ósamkvæmir."

Hann segir Einar Bárðarson, umboðsmann með meiru, hafa farið „á kostum" í hátíðarkvöldverðinum en eyðir flestum orðum í veiðisögur Sævars Guðjónssonar á Mjóeyri.

Á föstudegi var farið í skoðunarferð í Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði, Franska spítalann á Fáskrúðsfirði og loks á ferðasýninguna „Austurland að Glettingi" á Reyðarfirði.

Benedikt lýsir von sinni um að Sköpunarsetrið gangi sem best. „Því að það er alltaf gaman þegar fólk reynir eitthvað sem virðist svo fráleitt að það gæti verið skynsamlegt."

Franski spítalinn fær bestu meðmæli og ferðasýningin virðist sömuleiðis hafa slegið í gegn.

„Húsið er glæsilegt og safnið sem er í næsta húsi ekki síðra. Allir verða að stoppa í þessu safni, fá sér kaffi eða súpu og skoða sýninguna," skrifar hann um spítalann.

Í Fjarðabyggðarhöllinni var búið að teikna útlínur Austurlands á grasið með kaðli og var ferðaþjónustuaðilunum síðan raðað eftir landfræðilegri staðsetningu.

„Hafi einhver verið í vafa um að hér væri upplagt að eyða viku í sumar hvarf sá vafi eins og dögg fyrir sólu. Þetta fannst mér punkturinn yfir i-ið, að míta þe lókals, eins og við segjum á Stöðvarfirði."

Ferðinni lauk Benedikt svo á að heimsækja skyldmenni sín á Norðfirði og borða og gista á Hildebrand sem hann lýsir sem einhverju flottasta hóteli landsins.

Aðalatriðið eru hins vegar sögur Reynis Zoëga, föðurbróður Benedikts sem hann lýsir sem einum skemmtilegasta manni á Ísland.

„Hann býr núna í íbúð fyrir aldraða, sem ég veit ekki hvernig hann hefur komist inn í, því hann er enn ekki genginn í Félag eldri borgara á staðnum, enda ekki nema 94 ára gamall."



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.