Lith vann Gunna Þórðar keppnina: Erum jafnvel svolítið montnir

Lith band tokulagakeppniHálfaustfirska sveitin Lith fór með sigur af hólmi í lagakeppni Rásar 2 þar sem sveitir kepptu sín á milli í nýjum útgáfum á lögum Gunnars Þórðarsonar. Gítarleikari sveitarinnar segir það hafa verið heiður að hitta Gunna sjálfan sem afhenti verðlaunin.

„Við erum ljómandi kátir, jafnvel svolítið montnir," sagði Þórður Ingi Guðmundsson, gítarleikari sveitarinnar, þegar Austurfrétt heyrði í honum í dag.

Sveitin tók lagið „Am I Really Livin'" af Lifun, plötu Túbrots og skeytti inn í það stefi sem Gunnar samdi fyrir íslenskar fegurðarsamkeppnir.

Þórður segir sveitina annars litlar breytingar hafa gert á laginu nema það hafi verið þyngt örlítið með meiri áherslu á gítarleikinn. „Ég er gamall aðdáandi Trúbrots og mér fannst þetta lag passa okkar stíl ágætlega."

Verðlaunin voru afhent í útsendingu á Rás 2 á laugardagsmorgun og var það Gunnar sjálfur sem gerði það. „Við áttum gott spjall við hann fyrir utan útsendinguna og ég fékk hann til að árita gamla safnplötu með Hljómum fyrir mig. Hún er greinilega fágæt því hann kannaðist ekki við hana sjálfur."

Segja má að sigur Lith hafi verið nokkuð öruggur því sveitin varð bæði efst í netkosningu og hjá sérstakri dómnefnd. „Þetta er gott spark í rassinn fyrir okkur til að vera aðeins duglegri. Við fengum líka nýtt upptökutæki og nú vita aðeins fleiri af okkur."

Auk Þórðar er í sveitinni Hjörtur Rafn Jóhannsson frá Borgarfirði og þrír aðrir. „Sveitin sem slík hefur ekki verið til í nema 1-2 ár en við höfum þekkst lengur og spilað saman í öðrum verkefnum."



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.