Orkumálinn 2024

Logi danskennari: Ég á skemmtilegar minningar að austan

Logi skogarlandÞeir eru ófáir Austfirðingarnir sem hafa tekið sporið undir leiðsögn Loga Vígþórssonar danskennara, enda hefur hann lagt leið sína hingað austur um margra ára skeið til að kenna Héraðsbúum að dansa. Logi sem verður fimmtugur á árinu var aðeins 16 ára þegar hann kom í sína fyrstu kennsluferð til Egilsstaða.

„Egilsstaðir voru með fyrstu stöðunum sem ég kenndi á, og já ég var aðeins 16 ára þegar ég kom fyrst. Ég var þá í danskennaranámi hjá Sigurði Hákonarsyni og kom á hans vegum. Ég man meira að segja eftir fyrstu nemendunum, en ég man ekkert hvað þau heita því ég er svo hræðilegur í að muna nöfn,“ segir Logi þegar Austurfrétt náði spjalli af honum þegar hann var með námskeið á Héraði á dögunum.

Skemmtilegar minningar

„Við vorum yfirleitt tveir kennarar að kenna og maður bjó hreinlega í ferðatöskunni vikum saman og við fórum víða. En ég á skemmtilegar minningar að austan. Á tímabili var ég hérna í fulla tvo mánuði í senn og það var alltaf troðfullt. Allir krakkarnir komu og það myndaðist alltaf svo frábær stemning. Í þá daga gaf ég líka krökkunum sleikjó eftir danstíma sem þeim þótti ekki leiðinlegt. En ég er ekki viss að allir yrðu jafn kátir með það í dag.“

Kennir kynslóðum að dansa

Logi kom svo austur og kenndi dans á hverju ári, alltaf fyrir og eftir áramót, þar til eitt árið að hann kom ekki. „Ég ákvað að draga mig í hlé þegar ég frétti að ungur danskennari hafi flutt til Egilsstaða. Ég vildi ekki troða henni um tær svo ég hætti að koma. En fyrir tveimur árum hitti ég góða vinkonu mína af svæðinu sem hvatti mig eindregið að byrja með námskeiðin aftur, og úr varð að ég kom í fyrra og aftur í ár. Hún eiginlega kom mér aftur af stað eftir sjö ára pásu.“ Og eigum við von á þér á næsta ári og árið eftir það? „Ég kem pottþétt strax aftur í haust. Ég hef kennt mörgum kynslóðum hér að austan að dansa og fyrst ég var plataðu í þetta aftur, mun ég sinna þessu af hugsjón á meðan ég hef heilsu og getu til, enda ber ég sterkar taugar til staðarins.“ segir Logi að lokum.

Mynd 1: Logi kennir dans í Skógarlandi á dögunum. / Tjarnarskógur.
Mynd 2: Frá danssýningu á Hallormsstað haustið 2005. / GG.
Mynd 3: Logi þegar hann var á Egilsstöðum á dögunum 
Logi Dansýning
Logi kennari

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.