Rósa Valtingojer í yfirheyrslu: Elska að leira og mála og hlusta á Rás 1

rosa Valtingojer cutRósa Valtingojer listakona og verkefnastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði er í yfirheyrslu að þessu sinni. Hún komst í fréttirnar í vikunni þar sem Sköpunarmiðstöðin er tilnefnd til Eyrarrósarinnar. Þrátt fyrir miklar annir gaf hún sér tíma til að tala við okkur.

Hvað ertu að sýsla þessa daga? „Fjármál, skattaskýrsla, fuglar, umsóknir, vera góð mamma, og reyna að missa ekki geðheilsuna. Það er svona þetta helsta,“segir Rósa þegar blaðamaður heyrði í henni. Er alveg brjálað að gera? „Alltof, alltof mikið.“

Elska að leira og mála

Í hverju felast störfin þín? „Annað starfið mitt felst í að búa til íslenska fugla úr leir. Ég elska það. Það er bara yndislegt, leira, mála og hlusta á rás 1( og fá borguð laun).

Hitt starfið mitt er ólaunað en það felst í að vera verkefnastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar (SM). Þar sinni ég í raun almenn skrifstofustörf, sé um fjármál, almannatengsl, og er trúnaðarmaður og hvað þetta allt heitir.

Þetta er samt orðið svo miklu meira en bara vinna, því þetta hefur alveg yfirtekið líf mitt og minna og verður alltaf meira og meira eftir því sem SM vex og dafnar. Hún er frek á tímann minn og ég hef orðið mjög blendnar tilfinningar gagnvart Sköpunarmiðstöðinni, svona ástar/haturssamband,“ segir Rósa og hlær.

Gott að fá klapp á bakið

Hver voru viðbrögð þín þegar þú heyrðir um tilnefninguna?  „Ég varð soldið hvumsa. Blaðamaður hringdi í mig til að spyrja út í þetta og ég hafði ekki hugmynd um að við hefðum komist í topp þrjú. Svo fékk ég alveg smá kökk í hálsinn einfaldlega af því að ég er útbrunnin og tæp. En það var mjög ánægjulegt að við værum tilnefnd, eigum það alveg skilið. Það er sjúklega gott að fá svona klapp á bakið þegar maður er gjörsamlega búin á því og kannski farinn að efast um lífið og tilveruna.“

Hrærigrautur af allskonar verkefnum

Hvað er svo framundan? „Úff, fyrst er að fara í frí og hlaða batteríin. Koma svo heim og selja fugla á Handverk og hönnun í ráðhúsinu. Daginn eftir að sýningunni lýkur fer ég svo til Englands með Unu vinkonu að kynna Sköpunarmiðstöðina og hefja formlegt samstarf við menningarstofnun þar ytra. Svo er það bara hrærigrautur af allskonar verkefnum, setja upp ný verkstæði í Sköpunarmiðstöðinni, vinna að brunavörnum, stofna til ýmiskonar samstarfs og svo framvegis,“ segir Rósa að lokum.


Fullt nafn: Rósa Valtingojer

Aldur: 32

Starf: Aktívisti og raunsæ draumóramanneskja/ verkefnastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar og listkona

Maki: Zdenek Patak

Börn: Emil Valtingojer Patak

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Stöðvarfjörður, Frábært fólk, samhugur samfélagsins, besta sána á landinu, guðdómleg náttúra og alltaf nóg um að vera.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum?
Smjörlíki, filmur og smjörlíki.

Hvaða töfralausn trúir þú á?
Hreinskilni og einlægni.

Hvaðan kemur eftirnafnið Valtinojer?
Suður Tírol, Ítalíu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Matur í góðra vina hópi.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú?
Set símann á „silent“ og fer í heitt bað.

Hvernig líta kosífötin þín út?
Þau eru víð, munstruð, litrík, og þægileg.

Hvað bræðir þig?
Fólk sem er einlægt og hreinskilið og ekki með neitt rugl.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn?
Avókadó eða banani ef ég er blönk, annars er það pizza á Brekkunni, Merkigil nánar tiltekið.

Hvernig drekkur þú kaffið þitt?
Með mjólk þegar hún er til annars bara svart.

Syngur þú í sturtu?
Á ekki sturtu en styn oft af vellíðan þegar ég leggst í heita baðið mitt með lavender og vetiver olíu.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Að reyna að klára allt á to do listanum og halda ró minni. En týpískur dagur samanstendur af ótal mörgum og mjög sundurleitum verkefnum.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og afhverju?
Sennilega föstudagur, því þá er komið helgarfrí, og við fjölskyldan höfum kósý kvöld og njótum þess að vikan sé búin, sofum út og tökum því rólega.

Hvað ætlar þú að gera um helgina?
Ég er bara að stinga af. Flýg til Berlínar á sunnudaginn með fjölskyldunni og keyrum svo til Tékklands þar sem við ætlum að eyða 3 vikum í evrópska vorinu og slaka ááááá. : )

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.