Sólmyrkvinn verður mestur á Austurlandi: Tilfinningin eins og að heimsendir sé að hefjast

christa martin breiddalssetur 0072 webTunglið mun þekja 99,4% af sólinni fyrir Austfirðingum að morgni föstudagsins 20. mars sem er gerir Austurland að myrkasta svæði Íslands þann tíma. Stjörnuáhugamaður líkir því að fylgjast með sólmyrkva við að upplifa heimsendi.

Sólarmyrkvi verður þegar tunglið gengur milli sólar og Jarðar og myrkvar sólina að hluta eða í heild séð frá Jörðu. Það gerist aðeins þegar sól, tungl og Jörð eru í beinni línu.

Við almyrkva hylur tunglið sólina alveg en aðeins að hluta við deildar- eða hringmyrkva. Sólmyrkvinn sem verður að morgni 20. mars verður „mjög verulegur deildarmyrkvi," að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum.

Myrkvinn færist eftir sporbaug frá suðvestri til norðausturs og verður almyrkvað á Færeyjum og Svalbarða. „Þetta svæði endar 90-100 km úti fyrir Austfjörðum," segir jarðfræðingurinn og stjörnuáhugamaðurinn Martin Gasser hjá Breiðdalssetri.

Best á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði

Í Reykjavík hylur tunglið 97,5% sólar en 99,4% á Austurlandi. „Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður eru næst ferlinum en svo koma Norðfjörður og Djúpivogur. Það munar bara nokkrum kílómetrum þannig að munurinn á myrkvanum verður óverulegur," segir Martin.

Samkvæmt Stjörnufræðivefnum hefst deildarmyrkvinn séður frá Norðfirði klukkan 8:42 þegar tunglið gengur inn í skífu sólarinnar frá hægri. Klukkan 9:42 verða 99,4% sólarinnar þakin. Tunglið færist síðan út úr skífu sólarinnar og líkur myrkvanum klukkan 10:46.

Síðasti deildarmyrkvi á Íslandi var 1. júní árið 2011 en næstu myrkvi sést ekki frá landinu fyrr en í ágúst 2026. Að sögn Martins eru 2-3 sólmyrkvar á Jörðinni á hverju ári að meðaltali á 18 ára fresti á sömu breiddargráðu.

Tilfinningalega áhrifaríkt

Hann fylgdist með almyrkva í Tyrklandi árið 2006. „Tilfinningin var eins og heimurinn væri að farast því það slokknar á sólinni.

Ég skil vel að fólkið í gamla dag, sem kunni ekkert í stjörnufræði, hafi orðið hratt því þetta er tilfinningalega áhrifamikið. Það er sjaldfægt að tunglið fari fram fyrir stjörnu og það er enn betra ef það er sólin."

Hann segist hafa skoðað ýmsar leiðir til að upplifa almyrkva nú en þær hafi ekki gengið. „Ég reyndi að komast um borð í bát en fann engan enda langt að fara út.

Mig langaði líka að fljúga því líkurnar á að það verði skýjað eru 90% og á flugvél hefði verið hægt að komast upp fyrir skýin. Til að komast svona langt frá landi þarf tveggja hreyfla vél og það er engin slík til á Austurlandi.

Þess vegna ætla ég að vera hér heima á Breiðdalsvík og vona að það sjáist eitthvað."

Varasamt að fylgjast með

Martin reiknar því með að freista þess að horfa með skólabörnum á sólmyrkvann og útskýra það sem verður í gang. Þá selur ferðaþjónustufyrirtækið Tinna Adventures skoðunarferðir upp á Kistufell.

Sólin verður lágt á lofti um morguninn og þeir sem vilja fylgjast með myrkvanum þurfa að gæta þess að hvorki fjöll né byggingar skyggi á hana.

Eins getur verið varasamt að fylgjast með sólmyrkva en alls ekki má horfa á hann án hlífðarbúnaðar getur valið varanlegum augnskaða og jafnvel blindu. Nota þarf sérstök sólmyrkvagleraugu, en alls ekki þrívíddar- eða sólgleraugu og eins skal forðast ekki horfa á myrkvann í gegnum kíki. Öll skólabörn á Íslandi fá hins vegar gefins sólmyrkvagleraugu til að geta fylgst með.

Sólmyrkvinn 20. mars frá Norðfirði af Stjörnufræðivefnum.


Samanburður á sólmyrkvanum 20. mars 2015 í Reykjavík og Norðfirði af Stjörnufræðivefnum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.