Fyrirlestur um offitu og átvanda í kvöld: Ég er lifandi mynd af manneskju sem hefur náð að snúa lífi sínu við

Ester fyrir og eftirHelgina 6.-8. mars næstkomandi verður námskeið á Eiðum fyrir þá sem glíma við ofþyngd, matarfíkn og/eða átraskanir. Námskeiðið kallast Nýtt líf og er á vegum MFM miðstöðvarinnar, sem er meðferða- og fræðslumiðstöð vegna matarfíknar og átraskana.

Leiðbeinandi og ráðgjafi á námskeiðinu er Esther Helga Guðmundsdóttir, en hún þekkir vel hvernig er að standa í þessum sporum því hún sjálf hefur þurft að eiga við þennan vanda en hefur algerlega náð að snúa við blaðinu. Esther Helga er með meistaragráðu í stjórnun í heilbrigðisþjónustu, matarfíknar- og fíkniráðgjafi.

Í kvöld fimmtudagskvöldið 5. mars mun Esther Helga hins vegar halda fyrirlestur um offitu og átvandann í Félagsmiðstöðinni í Hlymsdölum kl. 20:00. Það eru allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Ekki megrunarnámskeið

„Þetta námskeið er í rauninni meðferðarnámskeið fyrir þá sem gætu átt við matarfíkn og átröskun að stríða. Þetta er ekki hefðbundið megrunarnámskeið, en við göngum út frá því að viðkomandi sé að glíma við fíkn í mat,“ segir Esther Helga í samtali við Austurfrétt.
Námskeiðið hefst með helgarnámskeiði þar sem fólkið kemur á föstudegi og fer heim á sunnudegi, en svo tekur við átta vikna tímabil þar sem viðkomandi er með stuðning, matarprógramm og önnur verkefni sem hann er að vinna í á tímabilinu. „Við förum vel í gegnum hvað við getum gert til að bæta lífstíl okkar til framtíðar og hvernig. Hver kannast ekki við að ná árangri bara tímabundið og enda svo alltaf á sama stað eða á verri. Á námskeiðinu gefum við fólki tækifæri til að framkvæma þessa breytingu með miklum stuðningi og svo sýnum við þeim hvernig þau geta síðan viðhaldið sínum bata til frambúðar.“

Skilgreining á matarfíkn

Hvernig áttar fólk sig á því að það á við matarfíkn að stríða? „Það er í raun einfalt. Við missum stjórn á því hversu mikið og oft við borðum og ekki síst hvað við borðum. Sumir missa stjórn öðru hvoru en aðrir borða stöðugt. Það skiptir þó ekki máli hvort það er mikið eða oft, því ef vandinn er til staðar þarf að vinna með hann sem fíknisjúkdóm og fíknisjúkdómur er krónískur sjúkdómur sem verður alltaf verri.
Það er í raun þrennt sem þarf að vera til staðar til að greina hvort matarfíkn sé til staðar. Í fyrsta lagi missir viðkomandi stjórn á áti sínu, annað hvort annað slagið eða stöðugt. Og þá er það þannig að hann borðar meira en hann ætti að borða af ákveðnum matvælum (sykur, sterkja , fita) eða ofborðar mat yfir höfuð.
Í öðru lagi upplifir hann neikvæðar afleiðingar af neyslu sinni. Afleiðingar hjá flestum eru þyngdarvandi, vanlíðan og samviskubit eftir mikið át ásamt vaxandi heilsuvanda í formi ýmissa lífstílssjúkdóma eins og t.d. hár blóðþrýstingur, áunnin sykursýki, bakflæði, frjósemisvandi og ekki síst þunglyndi og kvíðaraskanir sem eru áberandi hjá þessum hópi fólks.
Svo í þriðja lagi, að þrátt fyrir allar þessar neikvæðu afleiðingar og fólk veit að það er að gera eitthvað rangt, þá heldur það neyslunni áfram. Þetta þrennt er í rauninni skilgreining á hvort um fíkn er að ræða eður ei.“

Matartegundir sem breyta líðan

En er hægt að vera með matarfíkn og átröskun á sama tíma? „Já, hiklaust, það hafa flestir heyrt einhvern tala um að fólk borði yfir líðan sína og að fólk borði til að þess að breyta líðan sinni. En málið er að ákveðnar matartegundir geta breytt og breyta líðan okkar. Það sem gerist þegar við borðum sykur, sterkjurík matvæli, fiturík matvæli og saltrík matvæli er að heilastarfsemi okkar breytist og við örvum verðlaunastöðina sem framleiðir vellíðunarheilaboðefnið dópamín. Við stöðugt áreiti fer heilinn að mynda þol fyrir efnunum, sem er nákvæmlega það sama og gerist við neyslu fíkniefna, áfengis og tóbaks. Við aukið þol þurfum við meira og þróum með okkur fíkn í efnin."

Léttist um 60 kíló

En hvernig er þín saga? „Ég kem að þessu sem matarfíkill og glímdi við offitu, átröskun og matarfíkn. Ég hef verið í stöðugum bata við matarfíkn og átröskunum í rúm tólf ár. Ég var orðin 60 kg þyngri en ég er í dag og það tók mig eitt og hálft ár að grennast niður í eðlilega þyngd. Síðan þá hefur prógrammið mitt viðhaldið mér í kjörþyngd.
Ég er lifandi mynd af manneskju sem var mjög langt komin í mínum vanda og náði að snúa mínu lífi við.“ Var það ekkert erfitt? „Nei, þegar ég fékk loksins leiðbeiningar um mataræði og stuðningskerfi sem virkaði fyrir mig þá var þetta ekkert erfitt, þá var þetta það auðveldasta sem ég hef gert vegna þess að ég er ekki lengur á hnefanum að berjast við matvæli sem stöðugt kveiktu löngun hjá mér í meira. En ég, eins og svo margir aðrir, var búin að prófa allt milli himins og jarðar. Þetta prógramm heldur utan um mig og er að því leyti það léttasta sem ég hef gert.“

Nýtt líf

Esther Helga hefur unnið við námskeiðin hjá MFM miðstöðinni í fjölda ára. Hefur hún séð fólk ná árangri eftir þessi námskeið? „Já, það hef ég gert. Þess vegna kalla ég þau Nýtt líf. Og það er það sem fólk er að öðlast, að breyta lífi sínu á algerlega nýjan hátt. En eins og með allar fíknir þá vinnur fólk með sín mál og gerir það sem það þarf að gera, þá nær það árangri. Ef það stígur hinsvegar út úr prógramminu og hættir, þá missir það árangurinn. En það er gaman að segja frá því að ég var með átta manns hér fyrir austan á námskeiði í fyrra og sem hafa algerlega umbreytt lífi sínu. Samtals hafa þau grennst um 240 kg sem er ótrúlega flottur árangur. Þarf nokkuð að segja meira,“ segir Esther Helga brosandi að lokum.

Allar nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á matarfikn.is

Mynd 1: Esther fyrir og eftir hún missti 60, kg.
Mynd 2: Esther í fyrra lífi eins og hún segir sjálf. Þá starfaði hún sem söngkennari og kórstjóri.
Mynd 3: Esther starfar í dag við það að hjálpa fólki sem er í sömu sporum og hún var í einu sinni.
esther korstjori
Esther i dag
Ester fyrir og eftir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.