Alvöru karlmenn í Sláturhúsinu: Sýningin kemur fólki á óvart

Karlmennska marcusLjósmyndasýningin Alvöru karlmenn verður opnuð í Sláturhúsinu á morgun laugardag 28. febrúar klukkan 16.

Það sem þykir karlmannlegt er ákaflega breytilegt eftir tíma, stað og hópum. Á meðan að vaskur sjómaðurinn þykir karlmannlegur á einum stað og tímabili, líta aðrir kannski frekar upp til jakkafataklædda skrifstofumannsins eða krúttlega lopapeysukarlsins.

Karlmannleg líkamsstaða

Sæbjörg Freyja Gísladóttir, meistaranemi í þjóðfræði, vann í sumar verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna þar sem hún kannaði birtingarmynd karlmennsku í ljósmyndum frá árunum 1914 til 2014.

Verkefnið fólst í því að skoða hvernig mismunandi líkamsstaða þykir karlmannleg á hverjum tíma fyrir sig og hvernig það hangir saman við samfélagslegar breytingar.

Hvernig var að vinna þetta verkefni? „Það kom mér á óvart  hvað það var erfitt. Það skapaðist  til dæmis rosalega mikil tvíræðni í gegnum það, það bíður líka kannski upp á það. Ég sem kona að biðja karlmenn um að fá að taka myndir af þeim.

Bæði á Ísafirði og á Egilsstöðum hafði ég samband við menn og bað um myndatöku, en í Reykjavík labbaði ég bara niður í bæ og stoppaði menn út á götu og bað þá um að stilla sér upp þannig að ég fengi þeirra hugmyndir um líkamsstöðu.  Ég fékk nokkur dónalega „komment“ og þurfti að eiga við nokkrar afbrýðisamar kærustur. Mér fannst eiginlega erfiðara eftir því sem á leið að halda áfram bara út af þessu. En að öðru leyti var þetta ótrúlega skemmtilegt. Í framhaldi ef ég svo bæði verið að halda fyrirlestra um verkefnið og halda ljósmyndasýningar.“

Fylgir tísku

Sæbjörg ljósmyndaði um þrjátíu karlmen auk þess sem hún safnaði og greindi um eitt þúsund ljósmyndir frá Skjalasafni Austfirðinga og Skjalasafninu á Ísafirði frá fyrstu áratugum 20. aldar.

Hverju varstu nær með því að skoða gömlu myndirnar? „Það kom bersýnilega í ljós að fyrstu áratugir tuttugustu aldarinnar studdu þær niðurstöður sem leiðbeinandi minn í verkefninu Valdimar Hafstein var búin að komast að, að líkamsstaða fylgir tísku í rauninni.

Í byrjun aldarinnar þótti fínna að vera beinn í baki og bera sig vel og það tengdist hermennsku og fasisma. Undir lok seinna stríðsins og upp úr því  þótti hermennska ekki töff og þá fóru menn að vera slakari eins og kvikmyndahetjurnar í Bandaríkjunum, James dean og fleiri. Aftur á móti  á þessum tíma póstmódernisma sem við lifum á í dag eru allskonar straumar og stefnur í gangi.  Karlar stilla sér upp oft í samræmi við þann hóp sem þeir tilheyra. Sumir eru slakir og töff og aðrir eru standa svolítið bognir. Íþróttamenn eru ennþá svolítið beinir og stilla sér upp eins og glímu kapparnir.“

Karlmennska er breytileg

Hver var niðurstaða verkefnisins að þínu mati og hvað segir það okkur um karlmennsku? „Það er bara þetta. Karlmennska er ekki bara breytileg eftir tímabilum heldur líka eftir  stað, starfi og  aldri, og ef það koma stórar samfélagslegar breytingar þá getur hún tekið stökk. Það sem kom mér kannski líka á óvart með niðurstöðurnar er það, að við segjum oft að tískan fari í hringi sem hún og gerir, en hún gerir það líka með líkamsstöðu karla. Karlar upplifa alveg sömu pressur og konur í samfélaginu og niðurtöðurnar eru skýrar og sýna fram á að hugmyndir um karlmennsku eru breytilegar eftir tíma og stað, bara nákvæmlega eins og hugmyndir um kvenleika.“

Sýningin verður sem fyrr segir opnuð á laugardag klukkan 16.00 og boðið verður upp á kaffi og með því. Sýningin verður opin í anddyri Sláturhússins mánudaga til fimmtudags frá klukkan 18 til 22 og á laugardögum frá 13 til 17 út marsmánuð.

„Ég hvet alla til að kíkja. Þetta er mjög skemmtileg sýning og það er mikið lagt í hana og hún kemur fólki á óvart. Það eru aðgengilegir skýringartextar og svo er hægt að skemmta sér yfir myndunum,“ segir Sæbjörg að lokum.

Mynd 1: Marcus. / Sæbjörg Freyja.

Mynd 2: Sæbjörg Freyja. /  Úr einkasafni.

Mynd 3: Jón Ágúst Þorsteinsson, Flateyri. / Sæbjörg Freyja.
Karlmennska Sæbjörg
karlmennska Jón Ágúst Þorsteinsson Flateyri 3

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.