Breiðdalsvík: Opna nýja verslun í fyrrum húsi kaupfélagsins

fridrik blafell 0003 webTil stendur að opna nýja matvöruverslun á vegum Hótels Bláfells í húsnæði sem áður hýsti kjörbúð Kaupfélags Stöðfirðinga á Breiðdalsvík. Hótelhaldarinn segist aldrei hafa séð fleiri ferðamenn á staðnum heldur en í vetur.

„Við höfum undanfarin fjögur ár rekið hér kaffihús en ætlum nú um mánaðarmótin að opna matvöruverslun, minjagripaverslun og kaffihús," segir Friðrik Árnason sem stýrir hótelinu.

Undanfarið hefur verið unnið að því að standsetja verslunina. „Við ætlum að opna gamla búð. Við höfum verið að mála hillur og græja eins og þær séu 50 ára gamlar."

Aðspurður segir hann að boðið verði upp á vörur frá hótelinu. „Við verðum með okkar kjöt, okkar fisk, okkar brauð og annað sem við búum til. Við erum með kokka í vinnu og það hentar okkur að reka þetta saman."

Hann er óhræddur við að fara út í slíkan rekstur ætlaðan ferðamönnum á Breiðdalsvík. „Við höfum aldrei séð jafn mikið af erlendum ferðamönnum og í vetur. Undanfarna vetur hefur slæðst inn einn og einn en síðan í haust hefur nánast ekki komið nótt þar sem ekki hafa verið útlendingar á hótelinu."

Töluverð vinna hefur verið að standsetja búðina og taka til í húsinu. Sumt af því verður notað til að skreyta húsið.

„Við höfum fundið alls konar dót uppi á háalofti svo sem sláturhúsföt, skó, föt, pappíra, reikninga og verðlista frá byrjum, til dæmis Sambandinu. Það er gaman að sjá hvert verðið var á vörunni um 1950 eða 1960.

Við eigum eftir að vinna úr þessum munum en okkur langar að skreyta húsið með munum sem tengjast kaupfélaginu og staðnum.

Við höfum líka fundið bekkjarkladda Breiðdælinga og séð ástundun þeirra og einkunnir um 1930/40. Við sjáum til hvað við gerum við þá, kannski teljast þeir viðkvæmar upplýsingar!"

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.