Fór í þagnarhugleiðslu og talaði ekki í tíu daga: Þetta var dásamleg upplifun

Margaret johnson ausMargaret Johnson hefur ekki alltaf farið troðnar slóðir í lífinu. Hún er fædd og uppalin í Ástralíu en flutti til Íslands fyrir tuttugu og sex árum. Hún bjó lengi vel í sveitasælunni í Fljótsdalnum eða í rúm 20 ár, en í dag býr hún Fellabæ og kennir ensku við Menntaskólann á Egilsstöðum.

Margaret er líka jógakennari og hefur á þriðja ár rekið Jógastöðina Simply Yoga á Egilsstöðum ásamt stöllum sínum Tinnu Halldórsdóttur og Bryndísi Ford og segir hún Egilsstaðabúa duglega að stunda þessa tegund hreyfingar.

Hugleiðsla hefur einnig verið okkar konu hugleikinn og er hún ein af fáum Ísendingum sem hefur farið til útlanda í þagnarjóga, þar sem hún sagði ekki orð í tíu daga og hugleiddi. Austurfrétt lék forvitni á að vita hvernig sú lífsreynsla var og setti sig í samband við hana á dögunum.

Þagnarhugleiðsla

„Þetta er eiginlega ekki þagnarjóga. Þetta er meira þagnarhugleiðsla,“ segir Margaret þegar blaðamaður heyrði í henni.
„Ég fór í mína fyrstu svona ferð árið 2013 og fór þá til Ástralíu. En í fyrra prófaði ég þetta sama á Englandi og þetta er dásamlegt,“ bætir hún við.
Þagnarhugleiðslan er á vegum samtaka sem kalla sig Vipassana og bjóða þau svona hugleiðslunámskeið út um allan heim. En hefur Margaret alltaf verið andlega þenkjandi?

„Ég veit það eiginlega ekki. Jú kannski alltaf pínulitið. Jóga hefur lengi verið mér hjartfólgið og hugleiðsla er stór partur af jóga. Það er kannski það sem dreif mig út það að prófa þetta. Mig langaði að kanna hugleiðslu nánar og fór að leita að einhverju sem hentaði mér, og fann þessa tíu daga þagnarhugleiðslu hjá Vipassana og ákvað að prófa.“

Kostar ekkert

Og hvað? „Þetta er rosaleg upplifun. Í fyrsta lagi kemur maður algerlega á sinni ábyrgð og þetta kostar ekki neitt. Maður fær frían mat og gistingu allan tímann en það er mælt með að maður bjóði sig fram í sjálfboðavinnu á tímabilinu til að aðstoða við eitt og annað, en það er samt frjálst val. Þetta er engin lúxusgisting en það er heitt vatn, sturtur og allt til alls, en maturinn var mjög góður.

Áður en svo tíu daga hugleiðslan hefst skuldbindur maður sig að fara alveg eftir prógramminu sem meðal annars fól í sér að segja ekki stakt orð allan tímann. Ég mátti heldur ekki gera neitt sem drægi hugann frá hugleiðslunni. Þar af leiðandi er ekki leyfilegt að koma með Ipada, tölvur, síma, bækur og meira segja skriffæri og skrifblokk voru bönnuð. Þú yfirgefur þetta allt.

Hugleiðsla í marga klukkutíma

Á staðnum eru svo tvöhundruð þátttakendur. Hundrað konur og hundrað karlar en það eru engin samskipti á milli kynjanna. Nema allir hugleiddu saman í stórum sal, og stóð hugleiðslan alla daga frá hálf fimm um morguninn til átta um kvöldið, með tilheyrandi matarpásum.
Var þetta ekkert erfitt? „Dagur fjögur var svakalega erfiður. Mér fannst eins og tíminn stæði bara í stað. Að öðru leiti var ég búin að einsetja mér að klára þetta. Svo er bara ákveðið ferli sem þú gengur í gegnum í allri þessari hugleiðslu sem er stundum erfitt, en að lokum upplifir maður svo mikla hvíld.“

Allskonar upplifun

Hvað finnst þér þú hafa fengið út úr þessar reynslu? „Það er allskonar upplifun í þessu og sumt er erfitt að útskýra. Það er margt sem grasserar í hugum okkar sem við gefum oft ekki mikinn gaum, eins og hvernig við tölum við sjálfa okkur. Það var kannski það fyrsta sem ég tók eftir, að hugsanir mínar til míns sjálfrar voru ekkert allt of ljúfar.

Það sem gerist líka er að þú kemst í fullkomna meðvitund um hugsunarmynstrið þitt og hegðun. Í hugleiðslunni hleypur þú ekkert frá því. Þessir hlutir standa ljóslifandi fyrir framan þig. Heima getur maður alltaf hlaupið í burtu frá þessum hugsunum fundið eitthvað skemmtilegt að gera og í raun flúið raunveruleikann í hausnum í stað þess að takast á við hann. En til að svara þessum í fáum orðum þá færði þetta mér hundrað prósent innri kyrrð og það finnst mér dásamlegt.  Ég fékk samt rosalega mikið sjokk þegar ég byrjað að tala aftur og ég nennti varla að tala við neinn. En það kom hægt og rólega,“ segir Margaret.

Ekki fyrir alla

Mælir þú með þessu fyrir aðra? „Hiklaust, ef fólk er í þessum pælingum. Mér reyndar finnst fólk opnari og áhugasamari um svona hluti í dag en oft áður. En það halda þetta ekki allir út. Ég man á fjórða degi í hugleiðslusalnum heyrðum við mann standa upp og segja „Fuck it“ og ganga út. Hann gafst upp. En mér finnst þetta dásamlegt og mæli með þessu fyrir hvern þann sem hefur sjálfsaga til að gera þetta. Ég er „húkt“ og ætla aftur á þessu ári,“ segir Margaret að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.