Austfirðingar eiga sinn fulltrúa í Evróvisíon á laugardaginn: Það væri fáránlega skemmtilegt að komast í úrslitin

Hinemoa bandNú styttist heldur betur í að evróvisíon gleði landsmanna taki völdin á ný, en fyrra undanúrslitakvöld forkeppninnar verður á dagskrá á rúv á næstkomandi laugardag, þann 31. janúar. Það eru sex lög sem keppa um að komast áfram í úrslitaþáttinn og eiga Austfirðingar pínulítið í einu þeirra.

Það er lagið, Þú leitar líka að mér sem hljómsveitin, Hinemoa flytur. En einn meðlimur bandsins er Egilsstaðabúi. Hann heitir Kristófer Nökkvi Sigurðsson og leikur á trommur. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru Ásta Björg Björgvinsdóttir, Rakel Pálsdóttir, Sindri Magnússon, Gísli Páll Karlsson og Regína Lilja Magnúsdóttir.

Nafnið frá Nýja Sjálandi

Kristófer Nökkvi er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum og er sonur Höllu Eyþórsdóttur og Sigurðar Hlíðars Jakobssonar. Hann flutti til Reykjavíkur árið 2009 til að læra slagverk við FÍH.

Hinemoa er ný hljómsveit sem stofnuð var um mitt ár 2014. Hún hefur verið ötul við að spila og má lýsa tónlistinni sem dýnamísku folk krútti með smá tvisti. En hvaðan kemur þetta nafn? „Ásta Björg söngkona átti heima út í Nýja Sjálandi og var þar sem skiptinemi. Þar heyrði hún söguna um Hinemou sem er Maori og mikill kvenskörungur sem lét ekkert stoppa sig í að finna ástina. Sagan um þessa konu er mjög heilandi og þess vegna fannst okkur þetta nafn tilvalið. Nafnið vefst stundum fyrir fólki þar sem það er kannski erfitt að bera það fram fyrst, en eftir nokkur skipti er þetta ekkert mál,“ segir Kristófer Nökkvi í samtali við Austurfrétt

Ástarlag

Segðu okkur aðeins frá laginu sem þið flytjið. „Ásta Björg samdi það og átti það til. Hún fékk Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur til að gera texta og sendi það svo inn í keppnina. Þegar lagið komst áfram kom eiginlega ekki annað til greina en að við í hljómsveitin myndum flytja þetta saman svo við útsettum það í sameiningu og tókum það upp aftur. Þetta er ástarlag og fjallar um konu sem er að leita að ástinni. Ég held að það sé óhætt að segja að það sé svona Brasilískur sambafílingur í laginu, blanda af íslandi og Brasilíu sem er rosalega flott. Við höfum allavega verið að fá fáránlega góð viðbrögð síðan það birtist á netinu á mánudaginn. “
Er þetta ekki gaman?„Jú, þetta er æðislegt og þetta er miklu stærra batterí en ég átti von á. Þetta er langt frá því að fara bara upp á svið og spila. Það er miklu stærri pæling á bak við þetta, eins og búningar, hreyfingar og fleira. Allt þarf að vera vel æft. Þetta er frekar spennandi verkefni.

Stífar æfingar

Hvernig eru svo dagarnir fram að keppni? „Það eru búnar að vera stífar æfingar upp á hvern dag þessa viku og fyrir utan það eru stelpurnar á raddæfingum á fullu. Í dag förum við svo í Háskólabíó og æfum með myndavélum. Það er heilmikið í kringum þetta, en þetta er gaman.“

Plata á leiðinni

Hvenær eru þið svo á sviði? Við erum númer tvö á svið og ég hvet alla kláralega til að kjósa Egilsstaðabúann áfram. Það væri fáránlega skemmtilegt að komast í úrslitinn. En að því sögðu þá erum við í hljómsveitinni alveg á jörðinni með þetta allt saman. Það er gamla klisjan, við ætlum að hafa gaman að þessu, lifa og njóta. Það er bara geggjað að hafa komst í gegn í tólf laga úrtakið. Við erum svakalega sátt við það. Svo er alveg nóg að gera. Meðfram Evróvisíon ævintýrinu erum við í hljóðveri að taka upp plötu, það er um að gera að nýta meðbyrinn,“ segir Kristófer Nökkvi að lokum.

Fyrra undanúrslitakvöldið er á laugardagskvöldið kemur og hefst kl. 19:45. Hægt er að hlusta á lagið HÉR.

Mynd: Aftari röð frá vinstri: Sindri Magnússon, Gísli Páll Karlsson og okkar maður Kristófer Nökkvi Sigurðsson. Fremri röð frá vinstri: Rakel Pálsdóttir og Ásta Björg Björgvinsdóttir.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.