Stofnar Ritsmiðju Austurlands: Annar hver Austfirðingur gengur með bók í maganum

sigga lara jan15 0013 webStofnfundur Ritsmiðju Austurlands verður haldinn í dag. Markmið hennar er að vera samstarfsgrundvöllur þeirra sem starfa í útgáfutengdum störfum í fjórðungnum. Frumkvöðullinn segist vilja hjálpa skrifandi Austfirðingum til að koma út bókunum sem þeir gangi með.

„Ritsmiðjan á að vera samstarfsvettvangur og tengsla net útgefenda á Austurlandi eða þeirra sem starfa eða hafa menntun eða reynslu í útgáfutengdum störfum," segir Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sem haft hefur frumkvæði að stofnum samtakanna.

Hún er bókmenntafræðingur að mennt og með meistaragráðu í ritstjórn og útgáfu. Hún segist fundið fyrir miklum áhuga Austfirðinga á skrifum eftir að hún flutti heim til Egilsstaða árið 2012.

„Ég varð vör við að allir voru að skrifa eitthvað, annar hver maður gekk með barnabók, ljóðabók eða annað í maganum. Félag ljóðaunnenda stóð sem dæmi fyrir þriggja helga námskeiði í skapandi skrifum í fyrra og þangað mættu 24 einstaklingar," bendir hún á.

„Mig langaði að koma þessum hugmyndum í farveg þannig að hægt yrði að gefa bækurnar út."

Hjá Ritsmiðjunni geta höfundar nálgast upplýsingar um hvernig þeir beri sig að við að koma verkum sínum út, þar verður upplýsingavefur þar sem finna má fagfólk sem hægt er að leita til og fá aðstoð svo sem við gerð styrkumsókna.

Fleiri hugmyndir eru á borðinu, svo sem austfirska bókaverslun á netinu og þjónustumiðstöð fyrir skapandi skrif.

„Við leitum að fólki með áhuga á skapandi skrifum eða er í atvinnugreinum sem tengjast textavinnu. Fyrsta skrefið er að finna fólkið og tengja það saman," segir Sigríður Lára.

Stofnfundurinn verður haldinn klukkan 17:00 í húsnæði Hugvangs, Kaupvangi 6, á Egilsstöðum. Allir áhugasamir eru velkomnir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.