Hefur mætt á þorrablót á hverju ári frá 1970: Blótin hafa breyst til betri vegar

Siggi a slettuÞorrablót Reyðarfjarðar fór fram á föstudaginn var og heppnaðist það með prýðum. Einn af fjölmörgum blótsgestum var Sigurður Baldursson, bóndi á Sléttu í Reyðarfirði og var hann langt í frá að vera á sínu fyrsta þorrablóti.

Þorrablótsnefnd barst ábending um að blótið á föstudaginn var það fertugasta og sjötta sem Sigurður hefur setið. Að því tilefni var hann heiðraður með lófaklappi.

„Þetta var voða gaman og kom mér á óvart, ég fékk mikið lof. En þetta er rétt, ég hef mætt á þorrablót á hverju ári frá árinu 1970 þá var ég tvítugur, sú upplifun mjög merkileg,“ segir Sigurður í samtali við Austurfrétt.

Breyst til batnaðar

Hafa blótin breyst í gegnum árin? „Já, mjög mikið. Aðallega skemmtidagskráin. Maturinn hefur litið sem ekkert breyst, hann er þetta hefðbundna. En í dag er allt svo miklu vandaðra í kringum skemmtiatriðin, það er miklu meira lagt í þau í dag. Svo hefur tæknin breyst mjög mikið. Nú eru skjávarpar og allskonar dót sem var ekki áður.“ Finnst þér þau hafa breyst til batnaðar? „Já, hiklaust. Þetta hefur farið til betri vegar. En ég man ekki eftir blóti sem ekki hefur verið gert grín af mér,“ segir hann og hlær. „Grínið hefur þó verið mismunandi mikið og mismunandi gott,“ bætir hann við.

Ómissandi partur af tilverunni

En var Siggi sáttur við blótið á föstudaginn? „Já, þetta var rosa gaman eins og alltaf. Þetta er ómissandi partur af tilverunni. En besta blótið sem ég hafi farið á var árið 2012. Það ár tókst svo vel upp með skemmtidagskránna. Það er að sjálfsögðu blæbrigðamunur á því hvernig tekst til ár hvert og fer svolítið eftir því hvað hefur verið um að vera í samfélaginu það árið, það er misjafnt. En það var eitthvað við þetta blót árið 2012 sem hitti mig í mark,“

Hvergi hættur að mæta

Á svo ekki að mæta að ári? „Það ætla ég rétt að vona. Ég hef verið svo heppinn hingað til að það hefur ekkert staðið í vegi fyrir að ég geti farið, hvorki veikindi eða annað. Ég á eftir að mæta galvaskur allavega næstu tuttugu árin, og jafnvel lengur,“ segir Siggi að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.