Saumar barnafatnað með austfirsku landslagi: Langaði að gera eitthvað sérstakt

rassalfar bolur 1Eva Rán Reynisdóttir er þriggja barna móðir og fædd og uppalin á Egilsstöðum. Hún er dóttir Þrúðar Þórhallsdóttur og Reynis Magnússonar frá Stakkahlíð í Loðmundarfirði, en þau eru bæði fallin frá. Hún hefur búið í Reykjavík síðan 1998 en hugsar oft heim á Hérað, enda á hún ættingja og vini á æskuslóðunum.

Eva framleiðir og saumar barnafatnað undir merkinu RassÁlfar. Hún hafði starfað sem hjúkrunarfræðingur í yfir tíu ár þegar hún ákvað að hætta því og gerast heimavinnandi húsmóðir.

„Ég byrjaði upphaflega að sauma árið 2012 þegar stelpan mín er eitthvað um átta mánaða og ég byrjaði á því að sauma litríkar og skemmtilegar taubleiur sem slógu alveg rækilega í gegn. Ég var svo í því alveg þangað til í vor þegar ég ákvað að taka þetta aðeins lengra. Ég byrjaði á því að sauma föt á dóttur mína og flutti efnið inn að utan, en ég fann fljótlega að mig langaði að fara að hanna mín eigin efni, sem ég og gerði. Úr varð að ég hannaði þetta hesta og hreindýraefni sem ég hef verið að vinna með frá því í sumar,“ sagði Eva í samtali við Austurfrétt.

Langaði að gera eitthvað sérstakt

En af hverju hesta og hreindýramynstur? „Mig langaði að gera eitthvað sérstakt. Meðal annars að sjá íslenska hestinn í raunverulegu umhverfi. Og þar sem ég er ættuð úr Loðmundarfirði notaði ég mynd sem ég tók þar sem bakgrunn. Útkoman er svakalega falleg enda er Loðmundarfjörður paradís bernsku minnar.
Þegar þarna var komið gat ég ekki hætt og fékk þá hugmyndina að nota villt íslensk dýr. Þá hafði ég samband við Skarphéðinn, gamla líffræðikennarann minn úr Menntaskólanum á Egilsstöðum, og fékk leyfi til að nota eina af fallegu hreindýramyndunum hans. Í bakrunn notaði ég aftur fallega fjörðinn minn. Ég skellti mér svo í að læra á Photoshop til að möndla þetta allt saman og læt svo prenta þetta fyrir mig í Ameríku.“

Saumar heima

Eva er með fullkomna vinnuaðstöðu heima hjá sér og saumar hún allt sjálf. „Ég fæ samt hjálp frá nokkrum vinkonum mínum þegar mikið liggur við. Þetta hefur gengið það vel að ég er búin að sauma úr öllum 40 metrunum sem ég fékk í ágúst, og fötin sem ég saumaði með þessum munstrum eru uppseld. En ég á von á meira efni í janúar.“ segir Eva sem er að leita sér að framleiðanda erlendis til að létta af sér álagi.

Nýtt mynstur á leiðinni

En eru fleiri mynstur á leiðinni? "Já, ég er örugglega bara rétt að byrja. Ég er þegar farin að undirbúa nýtt mynstur sem mun líta dagsins ljós í janúar. Þar verður Holuhraun og eldgosið í aðalhlutverki. Ég er þegar búin að fá leyfi til að nota sjúklegar myndir af gosinu. Ég segi ekki meira í bili. En ég vil að mín mynstur verði bara íslensk. Það er svo mikill efniviður hér heima og ég vil nota hann,“ segir þessi hugmyndaríka kona að lokum.

Skoða má úrvalið af barnafatnaði Evu á facebook síðunni RassÁlfar

rassalfar bolur 2.jp

rassalfar Eva ran Reyndisdottir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.