Orkumálinn 2024

Guðrún Veiga í yfirheyrslu: Ég er eitt ýktasta jólabarnið undir sólinni

Nenni ekki ad elda kapaÞað kannast margir við Guðrúnu Veigu Guðmundsdóttur sem er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mikill námshestur, hún heldur úti vinsælu bloggi, skrifar pistla í Fréttatímann og var með matreiðsluþætti á istv. Nýjasta rósin í hnappagat þessar fjölhæfu konu er matreiðslubókin, Nenni ekki að elda sem kom út í lok nóvember. Austurfrétt heyrði í Guðrúnu og spurði hana einfaldlega hvað er að frétta?

„Ég var að ljúka við meistararitgerð mína í mannfræði núna í haust og útskrifast í febrúar, þar til annað kemur í ljós. Eftir jólin hygg ég þó á meira nám í tengslum við ritstjórn og útgáfu – ástæður þess eru bæði áhugi og yfirgengileg hræðsla við vinnumarkaðinn. Sennilega verð ég bara í skóla þar til LÍN rífur mig af spena sínum. Ekki að sopinn þaðan sé feitur en það er ótrúlegt hversu fær maður verður í að sníða stakkinn eftir óþarflega mörg ár í háskólanámi,“ segir Guðrún í samtali við Austurfrétt

Ástríða fyrir að skrifa

En hvenær byrjaði Guðrún að skrifa? „Ég hef alltaf haft mikla ástríðu fyrir því að skrifa. Ég hélt einmitt út nokkuð lesnu bloggið þegar ég var nemandi við Menntaskólann á Egilsstöðum fyrir rúmlega áratug (úff). Á endanum var ég kölluð inn á skrifstofu námsráðgjafa og vinsamlegast beðin um að hætta. Nú eða takast á við ærumeiðingarkærur. Ég átti það nefnilega til að sækja mér efnivið í kennarana mína – en ég hef séð til þeirra á því bloggi sem ég held út í dag þannig að ég held að við höfum öll farið nokkuð heil frá borði.
Á haustdögum 2012 opnaði ég svo annað blogg. Það var meira ætlað til þess að gera grín að sjálfri mér en öðrum. En mér þótti vanta bæði örlitla sjálfs- og kaldhæðni inn í þennan heim sem oft á tíðum virðist óþarflega fullkominn. Í ágúst ári síðar, 2013, fór bloggið á eitthvað undarlegt flug sem ég skil stundum ekki ennþá. Gestum þess fjölgaði gríðarlega og síðastliðið ár hefur þessi litli staður minn á internetinu verið það sem sér mér fyrir vinnu. Ég er auðvitað alveg ótrúlega þakklát fyrir það að fólk skuli gefa sér tíma til þess að staldra þar við. Sérstaklega þar sem ég tala nú sjaldan um stórmerkilega hluti – akkúrat í augnablikinu er ég að vinna í færslu um uppáhalds blandið mitt í poka. Afar merkilegur efniviður,“ segir hún og hlær

Nenni ekki að elda

En segðu okkur frá nýju bókinni. Af hverju matreiðslubók? " Af því að ég, sem sérlegur sælkeri og háttvirtur megrunarsvindlari, er orðin afar þreytt á doðröntum sem predika um yfirgengilega hollustu í hvert mál. Hollustu er jú nauðsynlegt að hafa á bak við eyrað, ég ætla ekkert að mótmæla því. En æ, þarf ekki bara stundum ákveðið mótvægi? Konu í poppbaði sem eldar pylsur og elskast iðulega með Betty Crocker kökumixum? ... En ég hef ekki alltaf haft ástríður fyrir mat. Það var ekki fyrr en undarlegar uppskriftir fóru að vekja athygli á blogginu mínu að matargerð fór að kveikja í mér. Uppskriftirnar eiga það sameiginlegt að vera einfaldar og fljótlegar - í takt við titil bókarinnar. Enda verð ég aldrei konan sem kemur til með að eyða meira en hálftíma í hvers kyns hnoð, hræringar eða sax. Aldrei," segir hún, og nú er það blaðamaður sem hlær.

Í jólabókaflóði

En hvað ertu að sýsla þessa dagana? „Í augnablikinu snúast allir mínir dagar um bókina og að fylgja henni eftir. Ég er margoft búin að biðja Guð að blessa sál mína í þessu jólabókaflóði. Mína vesalings nautheimsku sál sem hélt að hún yrði bara heima að telja seðla, borða sörur og hafa það kósý í desember. Aldeilis ekki. Ég er valsandi um borg og bæi þessa dagana að reyna að selja fólki hugmyndina um eigið ágæti og það gengur upp og ofan,“ segir þessi skemmtilega kona að lokum.


Fullt nafn: Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Aldur: 20 plús.

Starf: Háskólanemi, bloggari og pistlahöfundur hjá Fréttatímanum.

Börn: Valur Elí, 7 ára

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Fyrir utan heimabæi mína, Eskifjörð og Reyðarfjörð, á Seyðisfjörður hug minn og hjarta. Þar hef ég verið með annan fótinn síðan ég var lítil stelpa en mamma mín er fædd þar og uppalin. Góðu stundirnar sem ég hef átt á Seyðisfirði eru óteljandi. Sem og kokteilarnir sem ég hef drukkið þar.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Voga-ídýfu, að minnsta kosti tvær tegundir. Og rauðvín (já ég geymi það í ísskáp).

Hvaða töfralausn trúir þú á? Ég trúi á trúna á sjálfa mig. Ef svo má að orði komast. Ég held að maður fari ekki langt án hennar. Ég tókst einmitt á við verulega slæma daga hérna fyrr í haust, með hálfkláraða bók í höndunum og ókláraða meistararitgerð sem mér fannst eiga heima í ruslinu. Ég hringdi í mömmu (eins og ég geri alltaf þegar ég er við það að fara að grenja og ganga í sjóinn) og var eiginlega að leita eftir áliti hennar um að salta bara ritgerðina um óákveðinn tíma. Sem eftir á að hyggja hefði verið gríðarlega heimskulegt. En mamma mín (sem er öflugri en Brian Tracy) sagði við mig ,,hættu þessu – þú getur allt”. Einfalt en virkaði fyrir mig. Ég sit stundum og tuða við sjálfa mig ,,þú getur allt, þú getur allt” - skemmtilega hégómalegt, enda stunda ég þessa hegðun bara í einrúmi.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Bingókúlur, allt sem hægt er að borða með hnetusmjöri, brauðið hans pabba, gæsin hans Gumma og ítölsku kjötbollunar hennar mömmu.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Orðið ,,trít” fær svolítið víða merkingu þegar maður er námsmaður. Fyrir mér er eiginlega allt trít sem ekki felur í sér pakkanúðlur. Hvort sem um ræðir grænmetisbuff í Ikea eða að láta lita hárrótina sem nær niður að eyrnasneplum. Uppáhalds trítið mitt samt eru latir sunnudagar. Þá ligg ég í sófanum og horfi á að minnsta kosti sjö yfirborðskenndar bíómyndir. Borða popp. Og nammi. Og drekk Pepsi Max. Jafnvel rauðvín ef vel liggur á mér. Og veskinu.

Hvernig líta kosífötin þín út? Kósífötin mín samanstanda af gömlum óléttubuxum og bleikum útþvegnum náttkjól sem ég hef átt síðan ég var 12 ára.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Kjúklinganúðlusúpan á Krua Thai og ostafylltar brauðstangir í Söluskálanum á Egilsstöðum. Með aukasósu. Ég elska þær. Og hata að elska þær.

Hvað bræðir þig? Fátt. Ég er iðulega kölluð ísdrottning eða myrkrahöfðingi. Barnið mitt er að vísu stórkostlega vel heppnað. Sætur og ljúfur eins og smjörkrem. Hann þíðir mömmu sína reglulega.

Hvað er best við jólin? Ég er auðvitað eitt ýktasta jólabarn undir sólinni. Ég hlusta til dæmis á jólalög nánast allt árið um kring. Jólin mín ganga í garð þegar ég geng inn um dyrnar á foreldrahúsum um kvöldmatarleytið á þorláksmessu. Þrúgandi skötuilmurinn sem svíður nefhárin. Mmm. Hann kemur með mín jól. Ég borða samt ekki skötu, oj bara. Lyktin hefur bara fylgt jólunum mínum alla tíð og er algjörlega ómissandi. Þegar ég hætti að hanga í foreldrahúsum (nei mamma, það verður sennilega aldrei) ætla ég samt að sjóða skötu. Sýð hana bara og hendi svo. Baða mig upp úr lyktinni og leyfi jólunum að koma. Annars þykir mér það besta við jólin að liggja einhversstaðar í unaðslegri ofátsmóðu. Með bók. Og bleika Makkintossmola.

Gudrun veiga

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.