Orkumálinn 2024

Jólaóratoría Bach á Austurlandi

egilsstadakirkja 0032 webKammerkór og Kirkjukór Egilsstaðakirkju, ásamt einsöngvurum og hljómsveit munu á sunnudag flytja þrjár kantötur úr frægasta og vinsælasta kórverki sögunnar, Jólaoratoríu eftir Johann Sebastian Bach. Tónleikarnir verða bæði haldnir í Egilsstaðakirkju og Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði.

Alls koma hátt í sextíu manns að flutningnum en um er að ræða samstarfsverkefni kóranna tveggja og tónlistarmanna af Austurlandi. Fjórir einsöngvarar taka þátt í flutningnum en þeir tengjast allir landshlutanum með einum eða öðrum hætti.

Andrea Kissine Revfalvi og József Gabrieli-Kiss eru fædd í Ungverjalandi en hafa undanfarin ár starfað sem tónlistarkennarar og kórstjórar á Djúpavogi. Þorbjörn Rúnarsson er fyrrum áfangastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum og hefur sungið í fjölda kórverka á Austurlandi. Erla Dóra Vogler er uppalin á Egilsstöðum og flytur í janúar á Djúpavog þar sem hún tekur við starfi ferða- og menningarfulltrúa.

Jólaóratorían er eitt höfuðverka síðbarokksins. Í henni eru sex kantötur sem Bach samdi undir árslok 1734, á fimmtugasta aldursári. Kantöturnar sex átti að flytja á jóladag, annan dag jóla, þriðja í jólum, nýársdag, fyrsta sunnudag í nýári og þá síðustu á þrettándanum. Verkið var frumflutt í Nikulásarkirkjunni í Leipzig og endurflutt sömu daga í Tómasarkirkjunni.

Kórlögin eru útsetningar Bachs á sálmalögum sem sungin voru í þýskum kirkjum og eiga sum hver rætur að rekja til daga Marteins Lúters, sem innleiddi almennan kórsöng í kirkjum. Mörg þessara laga hafa ratað í sálmabækur víða um heim.

Verkið er ekki samið til þess að vera flutt í heilu lagi enda í lengra lagi fyrir slíkan flutning. Algengast er að verkinu sé skipt í tvennt, þrjár kantötur fluttar í senn. Fyrri hlutinn nýtur meiri vinsælda en sá síðari og verður hann fluttur þann 30. nóvember.

Þetta er í þriðja sinn sem Jólaóratorían er flutt á Austurlandi en Keith Reed stjórnaði henni tvisvar í kringum aldamótin. Stjórnandi að þessu sinni er Torvald Gjerde. Tónleikarnir á Egilsstöðum hefjast klukkan 16:00 en 20:00 á Eskifirði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.