Erla Dóra Vogler í Yfirheyrslu: Það verður mikið ævintýri að flytja á nýjan stað

Erla Dora VoglerErla Dóra Vogler, jarðfræðingur og óperusöngkona, hefur verið ráðin nýr ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps. Ráðning hennar tekur gildi 1. febrúar næstkomandi. Hún hefur lokið meistaranámi í jarðfræði við Háskóla Íslands og sambærilegri gráðu í óperusöng frá Tónlistarháskólanum í Vínarborg.

„Ég er fædd og uppalin á Egilsstöðum og hef alltaf komið heim á Austurlandið og unnið þar á sumrin, bæði þegar ég var við nám í Reykjavík og í Vínarborg. Öll þau listform sem ég get hugsað mér heilla mig, ég hef yndi af að syngja, njóta útiveru (ekki síst á jarðfræðilega áhugaverðum stöðum), spila, borða góðan mat, kynnast nýjum hlutum og ríða út,“ segir Erla þegar Austurfrétt hafði samband við hana, en hún er í yfirheyrslu þessa vikuna.

„Annars er efst á baugi hjá mér núna að ég er nýráðin Ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps og reikna með að flytja þangað í janúar ásamt kærastanum mínum og hefja þá störf af fullum krafti. Mín bíða mörg spennandi verkefni og ég hlakka verulega til að takast á við þau.“

Fullt nafn: Erla Dóra Vogler

Aldur: 31 árs

Starf: Nýráðin Ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

Maki: Sævar Þór Halldórsson - landfræðingur, landvörður og mikill áhugamaður um borðspil.

Börn: Engin ennþá

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Erfið spurning... þeir eru margir uppáhaldsstaðirnir á Austurlandi. Ég held ég verði að segja að Snæfell sé uppáhalds og svæðið þar í kring. Svo er auðvitað Breiðavíkin á Víknaslóðum, sem ég kortlagði með tilliti til jarðfræðinnar sumrin 2012 og 2013, alveg dáyndisfallegt svæði.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Fetaost, mjólk og smjör

Hvaða töfralausn trúir þú á? Engar töfralausnir, best að vinna fyrir lausnunum

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Ætli ég bara verði ekki að segja grillaðar SS pylsur með steiktum lauk og mikilli tómatsósu. Það er allavegana það sem er alltaf á afmælismatseðlinum. Besti dagurinn á leikskólanum í gamla daga var síðasti dagurinn fyrir sumarfrí þegar pylsur voru grillaðar úti. Í minningunni var ALLTAF gott veður þennan dag.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Út að borða með kærastanum mínum.

Hvernig líta kosífötin þín út? Náttbuxur og risavaxin prjónuð peysa

Er Lagafljótsormurinn til? Jájájá

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Verð að vitna í fyrra svar – pylsa með steiktum og mikilli tómatsósu

Hver er uppáhalds liturinn þinn? Grænn. Ekkert er fallegra en ferskur og fallegur díamosi á góðum degi.

Hver er uppáhalds bókin þín? Maskerade eftir hinn ofur skemmtilega Terry Pratchett

Af hverju ópera? Ég hef yndi af leikhúsi og tónlist, og ópera er ekkert annað en leikrit þar sem búið er að bæta við tónlist, líkt og í söngleikjum, nema að í óperunni er meiri tónlist (oftast í gangi allan tímann) og hún gjarnan flutt af heilli hljómsveit þannig að krafturinn og dramað er meira. Svo kann ég að meta vel fluttan klassískan söng.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Dalakofinn (Vertu hjá mér Dísa). Það er eiginlega lag ættarinnar. Langafi Hreinn Pálsson, söngvari frá Hrísey, tók það svo eftirminnilega að maður þarf varla annað en að nefna nafn hans við heldri konur til að þær kikni í hnjánum.

Hvernig leggst nýja starfið í þig? Ég er mjög spennt yfir þessu og hlakka gífurlega til að takast á við öll verkefnin sem bíða mín. Það verður mikið ævintýri að flytja á nýjan stað, kynnast fólkinu, hefðunum, umhverfinu og öllu öðru í Djúpavogshreppi.




Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.