Ráðstefna í tilefni tíu ára samstarfs Vesterålen og Austurlands

hugo hilde esk14Á morgun verður ráðstefna í Norræna húsinu í Reykjavík í tilefni af tíu ára afmæli menningarsamstarfs jaðarsvæðanna Austurlands og Vesterålen í Noregi en það hefur getið af sér fjölda menningarviðburða og verkefna sem eflt hafa menningarlíf svæðanna til muna.

Á ráðstefnunni verður rakið upphaf, áherslur og afrakstur samstarfsins, sem hófst formlega fyrir tíu árum, og rætt hvort það geti nýst sem fyrirmynd fyrir aðra.

Í heilan áratug hafa Austurland og Vesterålen staðið fyrir gagnkvæmum skiptum á myndlistar- og tónlistarmönnum, matreiðslu-meisturum og unglingahópum, námsferðir hafa verið farnar og ráðstefnur haldnar með fulltrúum atvinnulífs, menningarlífs og stjórnmála. Allt hefur þetta skilað sér í mun öflugra menningarlífi jaðarsvæðanna beggja.

Á ráðstefnunni verður leitast við að horfa á samstarfið og framtíð þess út frá norrænum áherslum, sjónarhorni listamannsins, stjórnsýslu og ekki síst nútíma menningarpólitík.

Dagskrá hennar er fjölbreytt líkt og samstarfið sjálft: Nokkur erindi verða flutt m.a. mun Katrín Jakobsdóttir, bókmenntafræðingur og þingmaður, fjalla um mikilvægi norræns menningarsamstarfs, Elfa Hlín Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, kynnir rannsókn á félags- og menningarlegu virði framlags brottflutts ungs fólks á heimaslóðum þess, Signý Ormarsdóttir, fulltrúi menningar hjá Austurbrú, og Erik M. Bugge, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Vesterålen, munu fjalla um árangur og áherslur samstarfsins og Garðar Eðvaldsson, tónlistarmaður, segir frá þýðingu samstarfsins fyrir unga listamenn. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, munu ávarpa ráðstefnugesti.

Boðið verður upp á fleiri viðburði í tilefni tíu ára afmælis samstarfsins, m.a. tónleika þar sem ungir listamenn sem tekið hafa þátt í samstarfinu flytja frumsamin verk í bland við eldri, sjónlistasýningu, markaðstorg og írskt tónleikakvöld. Frekari upplýsingar um þessa viðburði, boðskort og dagskrá ráðstefnunnar fylgja með sem viðhengi.

Hugo Hilde, tónlistamaður frá Vesterålen, að spila upp á Goðatindi í tilefni af tónlistarviðburðinum Rythmefor síðastliðið sumar. Reyðarfjörður í baksýn. Mynd: Austurbrú

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.