Hreindýraland í Sláturhúsinu á laugardag

Stilla700IS Hreindýraland verður opnuð laugardaginn 25. október klukkan 17.00 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Hátíðin er haldin í 9. sinn og er þemað í ár ljóð á skjá, þar sem bæði er unnið með listafólki sem vinnur með vídeó og hljóð, en einnig sem vinna með texta og ljóð.

Sett verða upp vídeóverk um allt Sláturhúsið, eins og gert hefur verið síðastliðin ár og má jafnvel búast við að húsið sjálft verði notað fyrir sýningu utanhúss. Verkin á sýningunni að þessu sinni eru frá Íslandi, Finnlandi, Danmörku, Frakklandi, Hong Kong, Þýskalandi og Svíþjóð.

Ásdís Sif Gunnarsdóttir myndlistarkona sem fyrir stuttu fékk verðlaun og viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur, fyrir framlag hennar á sviði myndlistar, spilar ljóðaplötu sína á opnunarkvöldinu og sýnir einnig vídeóverk sín. Snorri Ásmundsson sýnir 50 portrait verk, Sigga Björg Sigurðardóttir, Renaud Perrin og 13 listamenn frá Hong Kong sýna vídeóverk í ýmsum rýmum í Sláturhúsinu.

Tvær listakonur, þær Katarina Mistall frá Svíþjóð og Marie Thams frá Danmörku dvelja í listamannadvöl á Fljótsdalshéraði, og þær heimsækja skóla á Héraði á meðan dvöl þeirra stendur. Þær setja báðar upp verk sín í Sláturhúsinu, en verkin eru blanda af textaverkum, skúlptúrum og vídeólist.

Dagskrá hátíðarinnar verður birt á vefsíðu hátíðarinnar www.700.is á næstu dögum og einnig má fylgjast með á Facebook hátíðarinnar

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Kristín Scheving sem nýverið opnaði nýja raflistadeild í Listasafni Íslands, sem heitir Vasulka-stofa og er hún deildarstjóri þeirrar deildar og hefur sýnt reglulega allt þetta ár vídeóverk í kaffistofu Listasafns Íslands frá Hreindýralandshátíðinni.

Meðfylgjandi stilla er úr verki Marie Thams.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.