Á vakt við gosstöðvarnar: Spilastokkurinn er að verða ónýtur

bjorgunarsveit lokunarpostur bragi gummiAustfirskir björgunarsveitarmenn eru allan sólarhringinn á vakt skammt frá Þríhyrningsá en þar þurfa allir sem fara inn að gosstöðvunum í Helluhrauni að gera grein fyrir sér.

Þegar Austurfrétt bar að garði í byrjun vikunnar stóðu þar vaktina Guðmundur Óli Guðmundsson frá björgunarsveitinni Jöklu og Bragi Nikulásson úr björgunarsveitinni Héraði. Skipt er daglega, um kvöldmatarleytið og tóku Fáskrúðsfirðingar við af þeim félögunum.

Það var glatt yfir Guðmundi Óla og Braga þegar þeir ræddu við Austurfrétt. „Þetta er mjög þægilegt. Maður borðar mikið og gerir lítið," sagði Bragi.

Vísindamenn og fréttamenn sem hafa leyfi almannavarna til að fara inn á lokaða svæðið við gosstöðvarnar þurfa bæði að gera grein fyrir sér þegar þeir fara inn á svæðið og þegar þeir yfirgefa það.

Guðmundur Óli og Bragi sögðu að nokkur umferð hefði verið af þeim en engir ferðamenn. „Því miður eru engir óboðnir á ferðinni því annars hefðum við eitthvað að gera. Fólk virðist almennt fylgja reglunum."

Björgunarsveitarmennirnir hafast við í kassa af Úral-bifreið björgunarsveitarinnar Héraðs. „Þetta er besti skáli sem hægt er að hugsa sér. Það fer um okkur eins og á hóteli," segir Bragi.

Til að stytta sér stundir sitja þeir og spila. „Það er búið að spila svo mikið að spilastokkurinn er að verða ónýtur," segir Guðmundur Óli.

Aðspurður segir hann þá aðallega spila Þjóf og Ólsen, ólsen. „Ólsen, ólsen upp og niður getur gengið helvíti lengi."

Eftir að farið er framhjá varðstöðinni er um tveggja tíma akstur inn að gosstöðvunum. Félagarnir segjast lítið finna fyrir gosinu sjálfir. „Við sjáum bara bjarmann á kvöldin en hann er fallegur."

Mynd: Birgir Örn Sigurðsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.