Gull í tönn: Þetta verk fjallar um okkur

lf gull i tonn 0004 webLeikfélag Fljótsdalshérað frumsýndi um helgina leikverkið Gull í tönn. Verkið er samið af Ásgeiri Hvítaskáldi sem jafnframt er leikstjóri. Hann fór af stað til að skrifa verk sem gerst gæti í samfélaginu á Héraði.

Verkið segir frá Ása, öldnum hrossabónda í Hjaltastaðaþinghá sem flestir telja að sé dauðvona. Hann býr yfir auði því allur tanngarður hans er úr 24 karata gulli sem hann lét gera til minningar um gæðing sem hann þurfti að selja í Noregi.

Ýmsir gera sér ferð á bæinn í von um skerf af gullinu. Það flækir hins vegar málin að tennur erfast ekki og því þarf að rífa tennurnar úr gamla manninum áður en hann deyr. Úr verður mikil fjölskylduuppgjör þegar allir eru mættir á bæinn til að gera upp sakirnar og þá kemur í ljós að sá gamli er ekki dauður úr öllum æðum.

„Ég var búinn að ganga lengi um með þá hugmynd að gera gamanverk um gamlan mann að deyja á sveitabæ þar sem sé falið gull. Ég komst aldrei lengra með hana fyrr en mér datt í hug að gullið gæti verið falið í tönnunum. Þá kviknaði ljós og ég settist niður og fór að skrifa," segir Ásgeir.

„Þetta er farsi með alvarlegu ívafi, eins konar gamandrama. Það býr ýmislegt að baki eins og kemur í ljós þegar allir mæta á bæinn til að gera upp sakirnar. Þá reynist sá gamli ekki svo galinn."

Ásgeir hefur ekki áður skrifað eða leikstýrt leikverki í fullri lengd en hann hefur hins vegar fengist við kvikmyndagerð. Hann fékk styrk til að skrifa verkið frá Menningarráði Austurlands því það gerist á Austurlandi.

„Ég fékk styrk til að skrifa um það sem er að gerast hér. Verkið fjallar um okkur því það segir frá hrossabónda í Hjaltastaðaþinghá. Sumir þykjast þekkja karaktera í verkinu en við segjum ekkert meira frá því."

Undir það tekur Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir, formaður leikfélagsins. „Fólki verður bara að koma og sjá hvort það kannast við eitthvað sem það þekkir einhvers staðar frá."

Á vegum Leikfélags Fljótsdalshéraðs hafa verið sett upp 58 leikverk á þeim 48 árum sem félagið hefur starfað. Ellefu leikarar eru í verkinu en mun fleiri hafa gengið í þau verk sem sinna þarf í kringum leiksýninguna. Þá er mikið lagt í sviðsmyndina því verkið gerist inni í bæ, á bæjarhlaðinu og að sjálfsögðu úti í hesthúsi.

„Ég held að fólk viti ekkert á hverju það á von þegar það mætir á verkið en ég hef trú á að það komi ánægt út."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.