1700 fermetra jólamarkaður

Söluaðilar á jólamarkaði Barra hafa seinni partinn í dag verið að setja upp bása sína fyrir markaðinn á morgun. Þeir koma af svæðinu allt frá Skagafirði í norðri að Hornafirði í suðri.

„Það var opnað klukkan þrjú fyrir þá vildu stilla upp vörum. Þeir sem ekki komast núna koma í fyrramálið og eiga að vera búnir fyrir klukkan ellefu,“ segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra en markaðurinn sjálfur er frá 12-16.

Hann segir að yfir 70 aðilar af svæðinu allt frá Skagafirði til Hornafjarðar verði með sölubásar, fleiri en nokkru sinni áður. Þeirra á meðal eru skógarbændur sem komu með jólatré sín í morgun.

Gestir markaðarins koma af sama svæði. „Menn koma víða að ef færi er gott eins og útlit er fyrir núna. Sennilega verður algjör metaðsókn.“

Þessi aðsókn nýtist fleiri verslunum á Egilsstöðum og í Fellabæ. „Það er mikið rennerí hjá okkur, fólk kemur og fær. Margir nota tækifæri til að fara í aðrar búðir því þetta er söluhæsti dagurinn hjá sumum þeirra.“

Þetta er í tólfta sinn sem markaðurinn er haldinn og teygir hann sig yfir 1700 fermetra svæði í gróðurhúsi Barra við Fellabæ. Framtíðin markaðarins er óráðin því tilkynnt hefur verið að fyrirtækið hætti starfsemi um mitt næsta ár en Skúli spáir því að hann haldi áfram.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því. Þetta eru sömu aðilar og standa að Skógardeginum mikla. Því hef ég trú á að menn finni aðra lausn þótt ekki verði sama gróðurhúsastemmingin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.