Ylströndin verður sterkur ferðamannasegull

„Það var sérstaklega ánægjulegt þegar búið var að skrifa undir samningana og nú getur hönnunarvinnan farið í gang,“ segir Ívar Ingimarsson, einn af hluthöfum Ylstrandarinnar við Urriðavatn, sem áætlað er að opni vorið 2019.



Bláa lónið og Jarðböðin í Mývatnssveit munu taka þátt í að byggja upp ylströnd við Urriðavatn í nágrenni Egilsstaða, en samningar þess efnis voru undirritaðir í kuldagaddi við Urriðavatn í gær. Um heilsárs baðstað verður að ræða þar sem heitt vatn úr borholum við Urriðavatn verður nýtt til hitunar.


Vantað hefur heilsárs afþreyingu

Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er um 500 milljónir króna, hluthafar eru ellefu og Jarðböðin þeirra stærst.

„Ég flutti í Egilsstaði árið 2012 og heyrði fljótlega af hugmynd Guðmundar Davíðssonar hitaveitustjóra, en hann hafði látið gera uppkast að ylströnd við Urriðavatn. Mér datt strax í hug hvort ekki væri hægt að stækka verkefnið og útbúa heilsárs stað sem skapaði störf. Hafliði Hafliðason var að hugsa það sama, við höfðum samband við hitaveituna sem tók vel í að skoða málið og fljótlega bættist Hilmar Gunnlaugsson í hópinn,“ segir Ívar.

Þeir félagar hafa hist vikulega og unnið að hugmyndinni í tæp fjögur ár. „Við vorum allir sammála um að svæðið vantaði sterka heilsárs afþreyingu. Við höfðum samband við gistihúsa- og hóteleigendur sem voru hjartanlega sammála og hvöttu okkur áfram í verkefninu.

Ívar segir að fljótlega hafi þeir leitað til rekstraraðila Bláa lónsins og Jarðbaðanna, en Bláa lónið á hlut í Jarðböðunum. „Við strax til þeirra sem hafa sérþekkingu í greininni og þeir tóku strax vel í hugmyndina að vinna þetta með okkur en einnig koma að verkefninu sterkir aðilar í heimabyggð. Það var sérstaklega ánægjulegt þegar búið var að skrifa undir samningana og nú getur hönnunarvinnan farið í gang. Svona verkefni tekur alltaf langan tíma og tekst ekki nema með góðu fólki sem við erum með þannig að við erum kampakátir,“ segir Ívar.


Hreinasta heita vatn landsins

Steingrímur Birgisson er stjórnarformaður Jarðbaðanna og Grímur Sæmundsson, forstjóri Bláa lónsins voru báðir viðstaddir undirskriftina í gær.

„Heimamenn komu að máli við okkur með þessa hugmynd. Það er mikilvægt að fjölga ferðamannaseglum í landinu og við sáum strax mikil tækifæri í þessu. Austurland er sterkur staður fyrir okkur, en íslenska menningin að fara í sund er einnig rík meðal ferðamanna og sækja þeir bæði sundlaugar og aðra baðstaði mikið."

Steingrímur segir náttúrna og heita vatnið við Urriðavatn verða sérstöðu staðarins. „Náttúran og umhverfið er gífurlega falleg. Vatnið úr borholunum er einnig vottað sem drykkjarhæft og því um hreinasta heita vatn á landinu að ræða. Stærð húsnæðis er ekki endanlega ákveðin en við reiknum með að geta tekið á móti allt að 40 þúsund gestum strax fyrsta rekstrarárið,“ segir Steingrímur.

Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa lónsins, segist hreykinn af því að fá að taka þátt í uppbyggingunni við Urriðavatn. „Bláa lónið er frumkvöðull að uppbyggingu baðstaða sem atvinnugreinar á Íslandi og við höfum tekið þátt í baðstaðaverkefnum annars staðar á landinu, til dæmis eins og við Laugavatn og jarðböðin á Mývatni, til að tryggja að að þeim rekstri væri staðið af metnaði til að tryggja að orðspor sé gott og gæði upplifunar sé í samræmi við væntingar gesta. Það sama á við hér, Jarðböðin eru að fara að fjárfesta í þessu verkefni og við sjáum tvímælalaust samlegðaráhrif fyrir þau og ylströndina hér. Staðurinn hefur sín eigin sérkenni og hefur að mínu mati mikil tækifæri til þess að verða sterkur segull fyrir þetta svæði sem hefur hingað til vantað,“ segir Grímur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.