Wasabi-ræktun verður í gróðurhúsi Barra

Fjármögnun að fyrsta áfanga Wasabi Ísland er lokið og þar með á að vera hægt að hefja ræktunina. Hún á að verða í gróðurhúsi Barra í Fellabæ.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í gær en það hlaut í síðustu viku ríflega tveggja milljóna styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Nú eru komnar um 50 milljónir króna frá einkafjárfestum.

Fyrirtækið hyggst rækta wasabi plöntur fyrir heimamarkað og útflutning. Wasabi plantan er fágæt og er afar verðmætt hráefni í matargerð. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 af þeim Johan Sindra Hansen og Ragnari Atla Tómassyni en þeir eru útskrifaðir með BS próf úr vélaverkfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Hugmyndin um að rækta wasabi á Íslandi kviknaði meðan þeir voru enn í námi og unnu þeir úttekt á slíkri ræktun sem lokaverkefni í verkfræðinni. Sumarið 2015 var Wasabi Iceland eitt af tíu nýsköpunarfyrirtækjum sem valið var inn í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík á vegum Icelandic Startups og Arion banka.

Fyrirtækið hefur haft aðsetur í Húsi Sjávarklasans úti á Granda síðan í haust en tenging er milli sjávarútvegsins og wasabi jurtarinnar í gegnum sushi réttinn.

Gert er ráð fyrir fyrstu uppskeru árið 2017 og mun fyrsta íslenska wasabiið verða á boðstólnum á Fiskmarkaðnum og Grillmarkaðnum, en samningur þess efnis var undirritaður á dögunum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.