„Viljum setja fram raunhæfa áætlun sem stenst“

Formaður samgönguráðs segir að setja þurfi fram samgönguáætlun á Alþingi í haust sem taki mið af þeim fjármunum sem ætlaðir séu til samgöngumála á næstu árum. Aðkallandi samgöngumál séu í öllum landsfjórðungum.

„Við erum að vinna í forgangsröðun en það þarf að liggja fyrir hvað við höfum mikið fjármagn þannig við getum sett fram raunhæfa áætlun,“ segir Þórunn Egilsdóttir, formaður samgönguráðs og þingmaður Norðausturkjördæmis frá Vopnafirði.

Þórunn er skipuð af samgönguráðherra en að auki sitja í ráðinu fulltrúar frá Vegagerðinni, Samgöngustofu og Isavia. Ráðið ferðast nú um landið til að hlýða á sjónarmið heimamanna sem nýtast þegar ráðið gerir tillögur til ráðherra sem liggja til grundvallar nýrri samgönguáætlun sem tekin lögð verður fram á þingi í haust.

Núgildandi samgönguáætlun var loks samþykkt haustið 2016 eftir langt ferli en þegar á reyndi var hún skorin niður því ekki fengust fjármunir á fjárlögum til að framfylgja henni. „Við vitum að sú áætlun sem gildir út þetta ár er ekki fjármögnuð. Það gengur ekki að setja fram svoleiðis plögg,“ segir Þórunn.

Eystra hitti ráðið forsvarsmenn sveitarfélaga, Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og samgöngunefnd sambandsins. „Við erum að fara um og safna í sarpinn. Þar horfum við meðal annars til ályktana landshlutasamtakanna. Það kom ekkert á óvart í áherslumálunum en það eru mörg aðkallandi verkefni í fjórðungnum.

Þannig er það í öllum landshlutum. Það sem öðruvísi nú er að menn tala meira um viðhald en oft áður. Líti ð viðhald síðustu ára er að koma í andlitið á okkur og svo veðrátta eins og núna þar sem vegirnir skemmast hratt.“

Síðustu vikur hefur umræðan um veginn til Borgarfjarðar verið hvað fyrirferðamest í fjórðungnum. Fulltrúar þeirra afhenda í dag samgönguráðherra lista með undirskriftum. Ráðherrann lét nýverið hafa eftir sér að vegurinn væri að færast framar í forgangsröðunina. „Það er ekki boðlegt að árið 2018 sé þéttbýliskjarni sem býr við ónýtan veg,“ sagði Þórunn en vildi að öðru leyti ekki tala um forgangsröðun framkvæmda.

Framundan er umræða á þingi um fjármálaáætlun á Alþingi. Ráðið skilar af sér tillögum í ágúst og verður samgönguáætlun lögð fram á haustþingi. Samgönguáætlun hefur yfirleitt verið tvískipt, annars vegar til fjögurra ára og hins vegar til tólf ára en von er á að hún breytist þannig hún verði til fimm og tólf ára til samræmis við fjármálaáætlunina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.