Orkumálinn 2024

Vilja byggja upp sjóböð á Vestdalseyri

Athafnamenn á Seyðisfirði eru með hugmyndir um að byggja upp heita potta með fersku lindarvatni við Vestdalseyri. Með því vilja þeir efla afþreyingu fyrir ferðamenn á svæðinu og sýna eyrinni virðingu.


„Þetta snýst um að setja niður þrjá stóra heita potta sem byggðir eru um 15-20 metra út í sjóinn og tengdir við land með brú. Þar verða þeir umkringdir sjónum og firðinum og nógu langt frá bænum til að vera lausir við ljósmengunina þannig að menn geta notið ljósadýrðar á himninum og einnig horft upp á Strandartind eða út fjörðinn.“

Þetta sagði Dýri Jónsson, annar hótelstjóra Öldunnar sem leitt hefur undirbúninginn í samtali við Austurgluggann í síðustu viku eftir að verkefnið fékk eina milljón í styrk þegar úthlutað var úr Uppbyggingarsjóði Austurlands.

Að auki mun verða byggð sundlaug í fjöruborðinu og móttaka, gufubað og búningsaðstaða í grunni Gránufélagshússins. „Stefnt er að því að Náttúrulaugarnar geti rúmað yfir 100 gesti í einu.“

Undirbúningur er hafinn en styrkurinn nýtist í að rannsaka skilyrði á svæðinu auk þess að fullvinna kostnaðaráætlun. Gangi allt að óskum verður aðstaðan tekin í notkun vorið 2017.

Vestdalurinn er á náttúruminjaskrá og því þarf að fara varlega í framkvæmdir. Pottunum verður fundinn annar staður í Seyðisfirði sé hætta á að framkvæmdirnar raski verðmætum minjum.

Ný tækni opnar möguleika

Aðalmarkmið sjóbaðanna er að auka afþreyingu fyrir ferðamenn á Austurlandi. „Við höfum byggt upp fjölbreytta möguleika í gistingu og veitingum en það vantar dálítið upp á afþreyinguna. Á þróuðum ferðamannastöðum er afþreyingin farin að skila mestum tekjum. Ísland náði því loks á síðasta ári en Austurland hefur setið eftir.

Böð og heitt vatn er afþreying sem höfðar til mjög breiðs hóps. Við lifum við sjó og það væri gaman að nota það umhverfi meira. En Seyðfirðingar hafa ekki haft aðgang að heitu vatni. Nú er komin fram öflugri tækni með varmadælum til að hita upp vatn úr sjó eða ám og slíkt er til dæmis gert í sundlaug Snæfellsbæjar í Ólafsvík.“

En þótt vonast sé til að böðin geti aukið vetrarferðamennsku og fengið gesti til að stoppa lengur á Seyðisfirði eru þau ekki eingöngu ætluð til þess. „Þetta er ekki einkamál ferðaþjónustunnar. Þetta er líka hugsað með lífsgæði Seyðfirðinga og íbúa Austurlands í huga þannig að þeir geti komið og nýtt aðstöðuna.“

Mynd: Jón Hilmar Jónsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.